Almannatryggingar
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Þar sem hér eru óvenjulega margir viðstaddir held ég að ég verði að endurtaka einu sinni enn ræðu mína um þetta mál. Þetta mál snýst um ofur einfaldan hlut. Það snýst um að ef tryggingaráð fær kærumál til meðferðar um örorkumat megi það kveðja sér til ráðuneytis lækni, lagalega lærðan mann og félagsfræðilega lærðan mann. Þetta er vegna þess að örorkumatið er í eðli sínu lagalegt atriði, félagslegt atriði og læknisfræðilegt atriði. Um það deilir enginn. Það stendur skýrum stöfum í 12. gr. almannatryggingalaga.
    Í 12. gr. almannatryggingalaga segir ósköp skýrt og greinilega: ,,Tryggingayfirlæknir metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur.`` En það segir jafnframt í 12. gr. að það örorkumat skuli byggjast á því að menn séu öryrkjar til langframa á svo háu stigi --- og þá er verið að tala um að menn eigi rétt á örorkulífeyri --- eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi, að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn *y1/4*y þess, er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf, sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim, með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.``
    Tryggingalækni ber því að taka tillit til alls þessa, sjúkdómsins, svo og félagslegra aðstæðna, því að eins og allir vita geta tveir menn haft nákvæmlega sömu fötlun, annar getur verið fullfær um að vinna fyrir sér en hinn ekki og auðvitað skulu bætur alltaf miðast við efnalegar ástæður með þeim undantekningum sem eru fastalífeyrir eins og ellilífeyrir og 75% örorka. Flestar aðrar bætur eru háðar tekjum vegna þess að öll hugmyndafræðin á bak við almannatryggingakerfið er að gera mönnum kleift að lifa þrátt fyrir alls kyns áföll sem fólk kann að verða fyrir í lífinu.
    Málið snýst þess vegna einfaldlega um þetta: Dragi einhver í efa niðurstöðu í þessu tilviki tryggingayfirlæknis, vitaskuld fjallar tryggingaráð um öll önnur klögumál, en efist einhver um niðurstöðu tryggingalæknis má kalla til lækni, félagslega menntaðan mann eða lögfræðing vegna þess að örorkumat innifelur allt þetta. Ég sé því ekki með nokkru lifandi móti til hvers við eigum að fá til fundar formann læknafélagsins eingöngu. Nú bið ég hv. 3. þm. Reykv. að hlýða á mál mitt. Hvers vegna þarf þá ekki að tala einnig við formann lögfræðingafélagsins eða lögmannafélagsins, ég man ekki hvort það heitir, og formann félags félagsráðgjafa? Allar þessar greinar tengjast örorkumati og það er einungis verið að tala um að ef menn efast um að tryggingayfirlæknir og starfsmenn hans hafi tekið það tillit, sem 12. gr. almannatryggingalaga leggur þeim á herðar, skal ræða það í tryggingaráði með ráðgjöf og aðstoð þeirra þriggja manna sem málið varðar. Svo einfalt er það. Ég hygg að innihald þessa frv. sé flutt að efni til í sjötta sinn. Vissulega er það rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að það hefur verið flutt í ýmsu formi, m.a. í frv. mínu um áfrýjunarnefnd

sem hefði verið miklu skynsamlegri aðferð, en það náðist ekki fram og ég sætti mig við þetta. En ég vildi ítreka að þarna eru þrír fagmenntaðir menn fengnir til að fara ofan í mat sem á að byggjast á öllum þessum þremur atriðum.
    Ég skal gera það fyrir hv. 3. þm. Reykv. að eyða dýrmætum tíma heilbr.- og trn. í að tala við formann læknafélagsins, en auðvitað ekki nema tala þá við formann lögmannafélagsins líka og formann félags félagsráðgjafa vegna þess að þetta fólk er allt saman jafnrétthátt þegar örorkumat skal metið. Það er nefnilega rangt hjá ráðherranum fyrrv. og hv. 3. þm. Reykv. að hér sé um ,,klíniskt`` læknisfræðilegt mat að ræða. Það er rangt samkvæmt lögum um almannatryggingar. Ég vænti þess að hv. 1. þm. Vestf. hafi uppgötvað það þau ár sem hann var ráðherra.
    En ég skal kalla saman fund hvenær sem það verður nú hægt og ræða við þessa þrjá einstaklinga. Það er alveg sjálfsagt ef menn treysta sér ekki til þess að gera þetta upp við sig. Það verður þá að gerast í kvöld eða ég veit ekki hvenær. Tími þingmanna er orðinn naumur. En ég skal gera það sem ég get ef hv. 3. þm. Reykv. og hv. 17. þm. Reykv. eru ákveðin í því að þau viðtöl skuli fara fram.