Almannatryggingar
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég fagna því að hv. formaður heilbr.- og trn. hefur fallist á að boða til fundar í nefndinni, enda hefði annað verið óskiljanlegur stirðbusaháttur í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið. En vegna þess að hún var að rifja upp þær umræður sem fóru fram sl. föstudag þegar fámennt var í deildinni vildi ég koma því hér að og benda á það, sem bent var á sl. föstudag, að þetta frv. er auk þess sem áður hefur verið bent á einnig búið þeim annmarka að hér er gerð tillaga um að breyta frvgr. í öðrum lögum, lagagrein í öðrum lögum sem í enn öðru frv. ríkisstjórnarinnar á Alþingi er gerð tillaga um að verði felld niður. Þannig er nú samræmið og vinnubrögðin á stjórnarheimilinu varðandi þetta mál.
    Í 3. gr. þessa frv. er kveðið á um breytingar á 38. gr. almannatryggingalaga, en í frv. frá sömu ríkisstjórn um breytingar á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er gert ráð fyrir að þessi 38. gr. falli niður. Ég held að það sé nú engin sérstök vanþörf á því að nefndin kanni þetta mál allt betur, ekki bara það atriði sem hv. 3. þm. Reykv. gerði að umtalsefni heldur líka þetta nema ríkisstjórnin vilji áfram vera að standandi athlægi fyrir landsmenn.