Hlutafélög
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. um frv. um hlutafélög, en nál. er prentað á þskj. 967.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið um það umsagnir frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Verslunarráði Íslands, Seðlabanka Íslands og laganefnd Lögmannafélags Íslands. Þá kom Árni Vilhjálmsson prófessor, formaður þeirrar nefndar er samdi frumvarpið, á fund nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Ekki er um veigamiklar efnisbreytingar að ræða heldur er aðallega verið að færa til betri vegar ýmis ákvæði frumvarpsins.``
    Á þskj. 968 eru brtt. prentaðar í ellefu liðum og ég ætla ekki að hafa langan formála fyrir þeim. Þarna er ekki um veigamiklar efnisbreytingar að ræða heldur einungis verið að endurskoða orðalag og færa til betri vegar eftir því sem okkur sýndist að hægt væri að gera á frv. Ég vil taka fram að við áttum viðtal við Árna Vilhjálmsson prófessor sem samdi upphaflega frv. og hann féllst á þessar hugmyndir okkar, þær af þeim sem við bárum undir hann. Að vísu komu aðrar til síðar í meðferð málsins.
    Þarna er um verulega mikinn lagabálk að ræða og við höfum unnið í þessu af mikilli kostgæfni og nefndin er fyllilega sammála um að hér sé um framfaraspor að ræða og leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem við leggjum til á þskj. 968.