Þjóðminjalög
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., sem er frsm. menntmn. þessarar hv. deildar, náðist í nefndinni alger samstaða um afgreiðslu þessa máls, þ.e. frv. til þjóðminjalaga sem er 188. mál þingsins og segja má í reyndinni einnig afgreiðsla á öðru máli sem jafnframt var í hv. menntmn., þ.e. 301. máli, sem var frv. til l. um verndun fornleifa sem flutt var af hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánssyni og nokkrum fleiri þingmönnum. Þessi tvö frumvörp gengu nokkuð hvort í sína áttina, sérstaklega að því er snertir hvernig haga skyldi fornleifarannsóknum og verndun fornleifa í landinu.
    Ég vil aðeins rifja upp í þessu sambandi að þetta mál, þ.e. þetta frv. til þjóðminjalaga, á sér nokkuð sérstaka sögu. Þetta er ekki stjfrv. sem e.t.v. væri eðlilegt þegar um slíkt mál er að ræða. Málið á rætur að rekja til þess að er ég var menntmrh. skipaði ég þann 19. nóv. 1987 sérstaka nefnd til að móta stefnu í málefnum Þjóðminjasafns Íslands til næstu aldamóta og gera áætlun um endurbætur, vöxt og viðgang safnsins. Jafnframt var nefndinni falið að endurskoða núgildandi þjóðminjalög nr. 52/1969 með þeim breytingum sem síðar höfðu orðið á þeim lögum.
    Þessi nefnd, sem skipuð var fulltrúum fjögurra þingflokka undir forsæti Sverris Hermannssonar, fyrrv. hv. þm., samdi sérstakt frv. til þjóðminjalaga sem lagt var fram á síðasta þingi. Því var vísað til menntmn. sem sendi það til umsagnar ýmissa aðila sem hlut eiga að máli. Frv. kom seint fram og var þess vegna ekki afgreitt.
    Það var samkomulag um það milli mín og þeirrar nefndar að þetta yrði flutt sem þmfrv. en ekki stjfrv. Núv. hæstv. menntmrh. endurskipulagði síðan þessa nefnd í haust. Sverrir Hermannsson óskaði eftir lausn frá formennsku í nefndinni, en hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir tók við formennsku og við bættust fulltrúar bæði frá Borgfl. og Kvennalista.
    Það kom fljótt í ljós að nokkur ágreiningur var um það atriði hvernig vista skyldi fornleifaþáttinn í þessu frv., þ.e. hvort stofna skyldi sérstaka fornleifastofnun sem hefði þá með fornleifarannsóknir og fornleifaverndun að gera eða hvort þessi starfsemi yrði áfram í Þjóðminjasafni. Þessi ágreiningur endurspeglaðist m.a. í því að það var lagt fram sérstakt frv. hér um verndun fornleifa sem fól í sér að stofnuð yrði sérstök stofnun, þ.e. fornleifastofnun, sem fjallaði eingöngu um fornleifarannnsóknir og fornleifavörslu.
    Nefndin hefur lagt á sig mikið starf til að reyna að samræma þessi tvö sjónarmið. Það er alveg ljóst að fræðimenn greinir nokkuð á um hvernig best sé að haga þessum málum. Ég fagna því hins vegar mjög að það skuli hafa náðst það samkomulag sem hér liggur fyrir í nál. og brtt. menntmn. Mér er hins vegar fullljóst að þegar um er að ræða jafnvíðtæka málamiðlun og fram kemur í þessu máli eru ekki allir ánægðir. Sjálfur hefði ég gjarnan viljað hafa séð suma hluti öðruvísi í þessu frv. en raun ber vitni. Engu að síður tel ég mikils um vert að það skuli hafa náðst

samstaða því ljóst er að ef hún hefði ekki náðst í nefndinni og ef ekki næst sæmileg samstaða hér á hv. Alþingi um þetta mál verður það ekki afgreitt nú á þeim stutta tíma sem eftir lifir þingsins.
    Það er hins vegar mjög mikilvægt að setja nýja löggjöf um þennan málaflokk. Það þarf að fella bæði fornleifavörsluna og Þjóðminjasafnið og starfsemi þess að ýmsum nútímastjórnarháttum. Ég tel að það sé gert með því frv. sem hér liggur fyrir og með þeim breytingum sem menntmn. hefur látið frá sér fara. Ég vildi við 2. umr. þessa máls, ekki síst þar sem ég hef átt verulegan þátt í gerð þessa frv. og hvernig málið var lagt fram á Alþingi, gera grein fyrir þessu.