Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ástæða til þess að lýsa yfir ánægju með inntak þessa frv. Það er löngu tímabært að rannsóknir í þágu þessa undirstöðuatvinnuvegar okkar séu efldar og auknar verulega, en vissulega hafa ekki haldist í hendur framfarir í fiskveiðum og í afkastagetu fiskiskipastólsins og svo aftur þróun í stoðgreinum þessa iðnaðar, hvorki á sviði markaðsmála né á sviði rannsókna sem gætu leitt til aukinnar og betri nýtingar þess afla sem við drögum úr sjó og eins þróunar nýrra aðferða til þess að vinna þennan afla og auka verðmæti hans.
    En eins og aðrir hafa nefnt hér á undan mér er auðvitað gallinn við frv. að það er afskaplega óljóst hverjar tekjur þessarar deildar verða og hvaðan þær eiga að koma og hljótum við náttúrlega að lýsa eftir einhverjum hugmyndum í því sambandi. Það má hugsa sér ýmsar leiðir í tekjuöflun fyrir sjóðinn umfram það sem hugsanlega kæmi á fjárlögum og ekkert væri óeðlilegt t.d. að það tengdist að einhverju leyti við heildaraflaverðmæti hvers árs þannig að þetta héldist í rauninni í hendur, þau verðmæti sem við drögum úr sjó og hvað við leggjum í þróun og rannsóknir á sviði þessara greina.
    Það má vera að það sé einmitt í samræmi við svo margt annað í þessu þjóðfélagi, þ.e. að rannsóknir og grunnrannsóknir og nýsköpun ýmiss konar hafa ekki átt mikið upp á pallborðið á Íslandi, og gildir það sama um þessa atvinnugrein eins og flestar aðrar að það virðist oft vera magn og fljóttekinn gróði sem er yfirsterkari ígrundun og rannsóknum sem eru auðvitað langtímasjónarmið og mundu sjálfsagt skila betri afrakstri þegar upp væri staðið.
    Við inntak frv. vil ég sem sagt lýsa stuðningi en vonast til að endar verði betur hnýttir í þessu frv. um hvaðan fjármagn skuli koma til þróunardeildarinnar.