Fiskveiðasjóður Íslands
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég þakka þau viðbrögð sem hafa komið við frv. en get út af fyrir sig vel skilið þá gagnrýni sem hér kemur fram, að hér sé sjóðnum ekki séð fyrir neinum sérstökum tekjum. Það er út af fyrir sig réttmæt gagnrýni. Ég vil taka það fram í þessu sambandi að ég hef áður nefnt það við aðila í sjávarútvegi hvort ekki væri eðlilegt að lagt væri sambærilegt gjald á sjávarútveginn og er gert á iðnaðinn, þ.e. iðnlánasjóðsgjaldið, þannig að sjávarútvegurinn sjálfur greiði nokkurt fé til slíks sjóðs og síðan leggi ríkið eitthvað þar á móti. Við þessu hefur verið mikil andstaða, a.m.k. eins og stendur sem er út af fyrir sig eðlilegt vegna þess að afkoma sjávarútvegsins er með þeim hætti að hann hefur ekkert að láta, en auðvitað er vonandi, og við hljótum að trúa því, að þar komi breyttir tímar. Ég vænti því þess að meiri skilningur verði á því á síðari stigum. Þá er þessi sjóður þar fyrir hendi.
    Það má að sjálfsögðu um það deila hverjir skuli ráða yfir slíkum sjóði. Það er að mínu mati óeðlilegt að hafa allt of marga sjóði starfandi. Það hefur kostnað í för með sér og núverandi Fiskimálasjóður getur ekki staðið undir þeim kostnaði sem starfsemi hans hefur í för með sér og því er eðlilegt að þar sé gerð breyting á. Ég hygg að þeim sömu mönnum og er trúað fyrir því að lána fé til sjávarútvegsins sé jafnframt trúandi fyrir því að afgreiða styrki og lán til þróunar í sjávarútveginum.
    Hitt er svo allt annað mál eins og hv. 1. þm. Vestf. sagði að það er umdeilanlegt hverjir skuli vera í slíkri stjórn og hvernig þeir skuli kosnir. Það er annað mál sem ég ætla ekki að fjalla um hér, en ég tel að í þessari umræðu hafi komið fram að aðilar séu sammála um að eðlilegt sé að slík starfsemi eigi sér stað innan sjávarútvegsins og styrki nýjungar á hans sviði og láni til ýmissa nýjunga á sviði sjávarútvegs.