Búfjárræktarlög
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á búfjárræktarlögum, nr. 31 frá 1973.
    Frv. gerir ráð fyrir því að við XI. kafla búfjárræktarlaga bætist ný grein sem verði 64. gr., svohljóðandi:
    ,,Sveitarstjórnum er heimilt, til að auka öryggi umferðar á þjóðvegum og að forða ágangi búfjár, að ákveða að eigendum búfjár, þ.e. sauðfjár, geita, nautgripa og hrossa, sé skylt að hafa það í vörslu allt árið, eða tiltekinn hluta ársins.
    Heimild þessi getur jafnt tekið til alls lögsagnarumdæmis viðkomandi sveitarstjórnar eða afmarkaðs hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.``
    Hv. landbn. Nd. gerði eina breytingu á frv. svohljóðandi: ,,Í stað orðanna ,,að forða ágangi`` í fyrri efnismgr. komi: að koma í veg fyrir ágang.`` Að öðru leyti afgreiddi nefndin frv. frá sér óbreytt og lagði til að það yrði samþykkt.
    Það er svo að í gildandi löggjöf er ekki að finna neina almenna heimild til að banna lausagöngu búfjár. Í búfjárræktarlögum frá 1973, eins og þeim var breytt með lögum nr. 108/1988, er hins vegar heimild fyrir sveitarstjórnir til að takmarka lausagöngu hrossa, sbr. 38. gr. þeirra laga. Því þykir nú nauðsynlegt að auka við ákvæði núgildandi búfjárræktarlaga eins og hér er lagt til.
    Samkvæmt lögum um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum er sveitarstjórnum heimilt að takmarka búfjárhald og setja um það reglur, þar með talið að takmarka eða banna lausagöngu, og hafa fjölmargar þéttbýlissveitarstjórnir nýtt sér þessa heimild án þess þó að framkvæmd þeirra mála sé kannski alls staðar sem skyldi. Og hér er sem sagt lögð til sú breyting að almennt heimildarákvæði komi í búfjárræktarlög sem taki þá til allra sveitarstjórna landsins.
    Þessi breyting sem hér er lögð til er í samræmi við ályktun búnaðarþings frá 1989 um rýmri heimildir fyrir sveitarstjórnir í landinu til að takmarka lausagöngu búfjár.
    Þess má og geta að á vegum landbrn. er starfandi nefnd með fulltrúum frá umferðaraðilum sem er ætlað það verkefni að setja reglur og skoða þau mál sem lúta að lausagöngu búfjár og umferðaröryggi. Er þessi lagaheimild ekki síst nauðsynleg í því skyni að unnt sé að taka á þeim vandamálum sem vaxandi umferðarþungi á vegum skapar í sambandi við lausagöngu búfjár. Er þar ekki síst átt við lausagöngu stórgripa, en til þeirra má rekja flest hin alvarlegri slys sem verða vegna umferðarinnar og lausagöngu búfjár.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.