Búfjárræktarlög
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir skýringar hans. Ég skil það sem hann hefur sagt um þetta efni. En þrátt fyrir það verð ég að segja að mér finnst að þetta séu dálítið a.m.k., svo að ekki sé meira sagt, óvenjuleg vinnubrögð. Það hefði þá verið eðlilegra að jafnhliða því sem sett væru ný lög um búfjárrækt væru sett önnur lög um búfjárhald. Þetta frv., sem við nú ræðum, tilheyrir þeim þætti þessara mála sem heyrir undir búfjárhald. Þetta frv. gerir samt ekki breytingu á fyrirsögn á því sem eftir er af gildandi lögum um búfjárrækt og fjallar um búfjárhald. Til þess yrði að gera breytingar á frv. því sem við nú ræðum. Það kann að vera að hv. landbn. Ed., sem er hin ágætasta nefnd, geti bætt úr þessum formgöllum.