Búfjárræktarlög
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það sem hv. 4. þm. Vestf. er hér að ræða um hefur verið til umfjöllunar í landbn. Ed., samtenging búfjárhalds og búfjárræktar í lögum um búfjárrækt eins og þau eru gildandi núna. Við höfum meira að segja fjallað þar um ákveðnar greinar sem við höfum verið að hugsa okkur að setja inn í frv. um búfjárrækt sem er til umfjöllunar í landbn. Ed., þ.e. 13., 15. og 19. gr., um vörslu graðpenings o.fl., og vitað um það að það tengdist einnig lögum um þætti sem tilheyra búfjárhaldi á svipaðan hátt og það frv. sem hér um ræðir fellur undir þann þátt núgildandi búfjárlaga.
    Það má vel vera að æskilegast hefði verið að semja nýjan lagabálk um búfjárhald en mér skilst að sá hluti búfjárlaganna sem eftir er taki yfir þá málaflokka sem þar er um að ræða og á ekki að koma að sök. Sjálfsagt verða í fyllingu tímans samin ný lög um búfjárhald og þá falla þeir þættir sem enn eru inni í búfjárlögunum að nýju búfjárræktarlögunum sem væntanlega verða að þessu þingi loknu og þeir þættir sem eru í núgildandi búfjárlögum um búfjárhald verða í nýjum lögum þar um.