Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég ætlaði ekki út af fyrir sig að fara mörgum orðum um frv. sem hér liggur fyrir, en þó vildi ég aðeins reyna að draga fram meginatriði þess eins og ég sé það, þ.e. að meginatriðin eru í 4. og 5. gr. og í 6. gr. Það er kannski rétt að byrja á 6. gr., en þar er gert ráð fyrir því að öll fiskiskip sem veiða aðrar tegundir en botnfisk, þ.e. öll þau skip sem veiða rækju, humar, skelfisk, síld og loðnu, skuli veiða samkvæmt kvótakerfi, ef má nota það orð, þ.e. ef heimildir þessarar greinar væru notaðar.
    Nú býst ég við því að hv. flutningsmenn reikni með því að heimildir þessarar greinar verði notaðar, en þannig hefur háttað til að áður en lögin um stjórn fiskveiða voru sett, sem nú er vitnað til, var úthlutað aflamarki í skelfiski og í loðnu og í innfjarðarrækju en ekki í öðrum tegundum. Nú er gert ráð fyrir að þessu verði haldið áfram eins og áður var en jafnframt bætist þar aðrar tegundir við og því til viðbótar verði slíkum skipum óheimilt að veiða botnfisk nema komi til sérstakt veiðileyfi og það skuli takmarka við ákveðinn hámarksafla á skip, að teknu tilliti til veiðiþols fiskistofna og hagnýtingar skipsins til sérveiða. Það verður að skilja þessa heimildagrein þannig að hér sé gert ráð fyrir að viðkomandi skip fái ákveðnar aflaheimildir til að veiða rækju, til að veiða humar, skelfisk, síld og loðnu og auk þess skulu þessi skip fá tilteknar botnfiskveiðiheimildir að ákveðnu hámarki.
    Ég held að það sé öllum ljóst sem til þekkja að viðkomandi skip munu ekki á nokkurn hátt geta staðið undir rekstri nema fá viðbótarheimildir til að veiða botnfisk. Og hér er um mjög stóran hluta flotans að ræða sem flm. reikna með að verði rekinn samkvæmt kvótakerfi.
    Þetta er sem sagt stór hluti flotans sem menn gera ráð fyrir að svo skuli farið með og ég get alveg tekið undir það með hv. flutningsmönnum. Ég tel þetta vera skynsamlegt og í sjálfu sér ekki mikið öðruvísi en nú er nema að því leyti að með þessu yrði sóknarmark þessara skipa fellt algjörlega niður og ákveðið aflamark kæmi þá væntanlega í staðinn.
    Að því er varðar hinn hluta flotans sem er þá togaraflotinn allur og sá hluti bátaflotans sem ekki hefur neinar sérveiðiheimildir, sem er allnokkur, þá er gert ráð fyrir allt annars konar kerfi, þ.e. að hverju fiskiskipi skal ákveðin sóknargeta og reynt að meta það aflamagn sem skipið hefur burði til að veiða á hverju ári. Það er að mínu mati afar erfitt að meta það með einhverri vissu hvaða burði skip hefur til að veiða á ári hverju. Auðvitað eru skipin misjöfn, það er rétt, og hafa mismunandi möguleika til að veiða. Hitt er svo annað mál að það mun enginn geta komið í veg fyrir tækniframfarir á þessu sviði sem hafa verið örar og verða sjálfsagt enn meiri í framtíðinni. Þar að auki er fiskigengd misjöfn og það hefur að sjálfsögðu áhrif á það, og þarf ekki að ræða það, hvað skipin geta veitt. Það er t.d. alveg ljóst að sóknargeta flotans hér við suðurströndina og Suðvesturland er mun meiri en aflinn gefur tilefni til á þessari vetrarvertíð en það

sem hefur einkum stuðlað að því að hún hefur verið góð er góð fiskgengd á miðunum. Og það er að sjálfsögðu það sem skiptir ekki minna máli.
    Ég held því að afar erfitt verði að reikna út þessa sóknargetu og það er alveg ljóst að hún er mun meiri í dag en afrakstursgeta fiskstofnanna gefur tilefni til. Þá verður að sjálfsögðu að spyrja hvaða hömlur skuli þá lagðar á, a.m.k. í upphafi, því að hér er gert ráð fyrir að skipum skuli síðan fækka þannig að jafnvægi náist og gert þá ráð fyrir því að viðkomandi skip ráði ekki við að afla meira en þeim ber. Þetta mun að sjálfsögðu leiða til þess að mikil samkeppni verður milli skipanna og ekki er allt bölvað við hana, ekki vil ég gera það að mínum orðum, það hefur sína kosti. Það er hins vegar ljóst, ég get tekið það sem dæmi, að ef heimilað hefði verið að veiða með þessum hætti á núverandi vetrarvertíð hefðu bátar, sérstaklega norðan lands, orðið mjög illa úti því veiðar hafa verið sáralitlar eða miklu tregara fiskirí þar en hér sunnan við land. Þótt ég geri mér vissulega grein fyrir því að margir þeirra komi til veiða bæði við Breiðafjörð og jafnframt hér sunnan við land, þá er að sjálfsögðu alveg ljóst að ef veiða á úr heildarkvótum verður samkeppnin miklum mun meiri en annars hefði orðið og afli mundi berast örar að landi með tilheyrandi vandræðum fyrir vinnsluna.
    Þetta er veiðifyrirkomulag sem ég tel vera meingallað og sé ekki hvernig það muni geta farið fram svo bærilegt megi teljast, en hitt er svo annað mál að það er ekki þar með sagt að núgildandi fyrirkomulag hafi enga galla, það er langt í frá. Það er alveg sama með hvaða hætti veiðarnar verða stundaðar og hvernig þeim verður stjórnað, það mun allt hafa sína galla.
    Aðrar greinar frv. eru með svipuðum hætti og er í núgildandi lögum nema ég vil sérstaklega taka undir það sem segir í 7. gr., að það sé nauðsynlegt að stofna úreldingarsjóð fiskiskipa til þess að hjálpa til við það að taka skip af skipaskrá. Það er einn helsti galli núgildandi fyrirkomulags að ekki hefur tekist að úrelda skip með þeim hætti sem æskilegt hefði verið. Helstu ástæður þess eru mjög skammur gildistími núgildandi kerfis og sú hvatning sem m.a. felst í sóknarmarkinu og ýmsar aðrar ástæður sem þar hafa orðið þess valdandi.
Þess vegna er mjög brýnt að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að það sé meiri hvatning til að fækka skipum og minnka flotann.
    Ég vildi aðeins út af þeim umræðum sem hér hafa orðið og því sem hv. frummælandi sagði hér, að afli hefði farið svo og svo mikið fram úr ákvörðunum stjórnvalda, sérstaklega þorskaflinn, benda enn einu sinni á þá einföldu staðreynd, sem ég hef oft bent á í umræðum um þessi mál, að ákvörðun stjórnvalda er viðmiðunarafli sem er grundvöllur aflamarksins en það hefur ávallt verið gert ráð fyrir því að aflinn væri nokkru meiri og útskýrt m.a. með tilliti til sóknarmarksins, aflaheimilda smábáta o.s.frv., þannig að þegar hér er sagt að ákvörðun stjórnvalda á árinu 1988 hafi verið 315 þús. tonn, veiðin 376 tonn og

mismunur 61 þús. tonn gefur það ekki rétta mynd vegna þess að það var alltaf gert ráð fyrir að veiðin væri svona 350--360 þús. tonn.
    Hitt er svo annað mál að veiðin hefði þurft að vera minni á undanförnum tveimur árum, það get ég tekið undir, en það er í þessu sem öðru að menn hafa leitað að ákveðnum málamiðlunum og afar margir í þjóðfélaginu, þar á meðal á Alþingi, ekki viljað sætta sig við það að svo harkaleg stjórnun ætti sér stað. Það hefur m.a. leitt til þess að smábátar hafa fengið rýmri heimildir en efni stóðu til og sóknarmark fiskiskipanna gaf verulega möguleika til að auka aflann, en minni möguleikar í sóknarmarki hefðu að sjálfsögðu orðið til þess að aflinn hefði orðið minni. Þetta vildi ég vinsamlegast biðja menn um að hafa í huga þegar menn meta það hvernig staða mála er, þannig að það byggi á raunverulegum staðreyndum en ekki einhverju öðru.
    Að því er varðar fiskiskipaflotann er rétt að taka það fram að inni í þessum töflum eru jafnframt þau skip sem ekki er haldið til veiða en hefur verið lagt. Það eru nokkur skip sem eru enn þá á skipaskrá en hafa verið tekin út úr veiðunum, þannig að það er heldur misvísandi að taka algjört mark á þessari skrá, en hitt er rétt að brúttólestatala flotans hefur aukist og þessu þyrfti að snúa við. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa það í huga að kröfur hafa mjög aukist um aðbúnað manna, um meðferð afla um borð í fiskiskipum, og það þarf meira rými í skipunum til þess að geta sinnt þessum kröfum. Það er ekki lengur til siðs að hýsa alla mennina í einum lúkar um borð í skipum. Þar hafa komið til þau nútímalegu sjónarmið sem eru ríkjandi við okkar aðstæður og að sjálfsögðu hefur þurft að taka tillit til þessa. Jafnframt er það ekki lengur til siðs að hrúga fiskinum í stíur nema þá í mjög litlum mæli sem betur fer. Þar hefur átt sér stað mikil breyting og fiskur er nú settur í kassa og kör og venjulega ísaður, þannig að það þarf meira pláss og reglur um stærð skipanna hafa tekið tillit til þess.
    Nú á sér stað veigamikið starf til undirbúnings endurskoðun þessara laga þar sem margir koma að og ég veit að þar er unnið mjög gott starf og væntanlega mun liggja fyrir að einhverju leyti á haustmánuðum hvert hugur manna stefnir til breytinga á núgildandi lögum. Það er alveg ljóst að þau þurfa breytinga við og um það þarf að nást bærileg samstaða hér á Alþingi og ekki síst í þjóðfélaginu. En ég held að ég geti sagt það af nokkurri reynslu að það fyrirkomulag sem fram kemur hér í 4. gr. og 5. gr. mun ekki vera til þess fallið að skapa betri frið um þessi mál en er í dag. Þarna eru andstæð sjónarmið uppi og það eru mismunandi hagsmunir eftir landshlutum, eftir einstaklingum o.s.frv., og það er mjög mikilvægt að skapa sem bestan frið um það. Það er mjög gott að fá fram sjónarmið manna í þá umræðu sem nú á sér stað og ég skildi hv. flm. þannig að hann vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Það er nauðsynlegt að ræða þau eins og önnur sjónarmið, en ég vildi láta í ljós það álit mitt að ég tel þessa skipan mála ekki

vera til þess fallna að ná meiri samstöðu en þó hefur tekist eins og er í dag.