Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Frv. sem hér er til umræðu um stjórn fiskveiða er að því er tillögumaður hefur tjáð deildinni umræðugrundvöllur og viðrun nýrra hugmynda um það hvernig megi breyta til í úthlutun fiskveiðiheimilda. Það umræðuefni er á vörum hverra þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Það er mikið deilt um kvótakerfið, það er mikið deilt um fiskveiðistjórnun og það er ekki að undra. Það er mikið vandamál hvernig á að skipuleggja stjórnun fiskveiða á Íslandi. Ég verð að játa það að ég finn hvergi nokkurs staðar neinn einhug í þessum efnum. Þar sem ég þekki gerst til fer það mikið eftir byggðarlögum hvernig menn vilja stjórna fiskveiðum. Það fer eftir bátum, það fer eftir því hvaða bátategundir menn eru með, og það fer eftir svo ótalmörgu öðru.
    Það hefur verið erfitt að ná nokkurri einingu um þessi mál og eining hefur náttúrlega ekki fengist. Þó verð ég að segja það að þó að hæstv. sjútvrh. sé talinn afar þver held ég að honum hafi tekist mjög vel í því að leiða þó fram lög um þessi mál, og ég hygg að minni ófriður sé um þetta mál en var á sínum tíma.
    Hvað varðar þetta frv. er þar bryddað upp á ýmsum nýmælum að því er greint er frá í grg. Ég hef verið að velta fyrir mér útfærslu á 4. gr. þar sem segir: ,,Siglingamálastofnun ríkisins skal mæla sóknargetu fiskiskipa.`` Og svo segir áfram: ,,Ráðherra setur reglur um mat á sóknargetu fiskiskipa í samráði við Siglingamálastofnun ríkisins, Landssamband ísl. útvegsmanna, samtök sjómanna og Fiskifélag Íslands.`` Ég veit ekki hvaða aðferðum á að beita til þess að mæla sóknargetuna. Og mér er það alveg óskiljanlegt. Það vita allir sem þekkja mun á flóði og fjöru að burðir skips segja ekki allt um það hvað það getur aflað. Hvað með afburðamenn eins og getið er um í grg. þar sem segir að afburðamennirnir fái að njóta sín með þessu? Hvað með áhöfnina? Hvað með fiskigengd? Hvernig reiknast það inn í þetta? Og þó að Siglingamálastofnun eða einhverjir aðrir meti sóknargetu eða mæli, sem ég veit ekki hvernig er hægt að gera, ég verð að játa það, hlýtur að þurfa að taka inn í það hverjir eiga að fara með skipin. Afburðamaðurinn getur gert mikið betur en skussinn. Það sjá menn ekki fyrir, það mæla menn ekki fyrir, ekki nema á nokkrum líkum, svo að burtséð frá þessu mætti kannski í kvikindisskap, það er ekki ætlunin að það verði tekið þannig, en þetta mætti alveg eins orða: Siglingamálastofnun ríkisins skal mæla sóknarkvóta fiskiskipa --- er þetta ekki ákveðin mæling sem á að fara fram? --- og skammta það síðan hvað skipin eiga að fá að afla.
    Nei, þetta er nokkuð sem ég þarf að fá skýringar á, kannski fyrst og fremst af því að ég skil það ekki.
    Menn ræða almennt um kvótann og það er fullyrt um það hvað hafi gerst eftir að kvótinn hefur verið settur á, og það er mjög erfitt að fullyrða hvað hefði gerst hefði hann ekki verið. Ég verð að játa það. En við setjum á kvóta eða fiskveiðistjórnun vegna þess að við höfum talið okkur trú um það að fiskur í sjónum

sé ekki nægur fyrir þjóðarbúið, þ.e. sóknin hafi verið of mikil og fiskstofnarnir í hættu. Ég tel að það þurfi að gera breytingar á kvótakerfinu sem nú er og það vefst ýmislegt fyrir mönnum þegar menn hugsa um það. Ég tel að það sé mikill galli t.d. að útgerðarmaður getur ákveðið það, einn og óháður, að flytja alla atvinnuna úr byggðarlaginu og fara bara eitthvað annað og skilja eftir tugi eða hundruð manna atvinnulaus og leggja byggðarlögin í eyði.
    Það hafa komið upp hugmyndir um það að til að hamla á móti þessu hafi vinnslustöðvarnar kvóta líka, eða að hluta. Ég hef hins vegar ekki komist að niðurstöðu um hvernig skuli útfæra það, og það hræðir mig að ég man eftir því að þegar snurvoðin byrjaði í Faxaflóa var veiðiheimildum úthlutað á fiskvinnslustöðvar. Þá kom upp það vandamál að fiskvinnslustöðvarnar höguðu málum eins og þeim datt í hug og sjómennirnir fengu ekki greitt nema eftir svo og svo langan tíma þannig að það togar hvað í annað. Vegna þess að ég veit ekki hvernig ætti að tengja þetta betur byggðarlögnuum hrekst ég út í það að ætla að enn sem komið er sé nauðsynlegt að binda kvóta við skip. Það þarf hins vegar að finna leið til að koma í veg fyrir það að einhver og einhver geti lagt atvinnulíf byggðarlaga í rúst með geðþóttaákvörðunum.
    Hvers vegna er fiskveiðistjórnun? Það eru mörg svör við því, t.d. til að nýta fiskveiðistofnana hagkvæmar en áður, skapa meiri hagkvæmni í rekstri fiskiskipa og fiskvinnslustöðva, og það þarf að leita allra leiða til þess að unnt sé að ná þeirri hagkvæmni.
    Þá komum við að því hvernig eigi að fara með sölu á þessum aflaheimildum. Vafalaust er það hagkvæmast að kvótann megi selja hvert sem er og hvenær sem er, en þar koma á móti byggðasjónarmið sem hamla því eins og ég var að tæpa á hérna áðan. Á Suðurnesjum, þaðan sem ég er, hefur aflast illa á undanförnum árum. Fiskiskip hafa verið seld hvert á fætur öðru til annarra landshluta og kvótinn hefur þess vegna minnkað. Ég held að það hafi aldrei komið fyrir að menn hafi aflað upp í allan kvótann, en nú sýnist mér að það sé að gerast. Og ég óttast það hvernig umhorfs verður á þessu svæði á haustmánuðum. Vertíðin hefur verið góð og því eru menn að komast í þessa stöðu. Það getur skapað mjög
erfitt tímabil að hausti sem erfitt verður að eiga við. En ef svo verður að afli eykst á næstu árum á þessu svæði, þá bind ég miklar vonir við það að skipin fari aftur að sækja á þetta svæði. Það hefur gerst í Vestmannaeyjum. Þeir hafa fengið til sín fleiri og fleiri skip. Útgerð er mjög vaxandi í Vestmannaeyjum. Þeim hefur gengið vel í þessu kerfi. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort svo gæti ekki farið að sú stund komi á Suðurnesjum. Ég óttast það hins vegar hvað verður núna á haustdögum sem verður samhliða því að aflabrögð hafa verið góð. En eitt er víst, menn hafa haft miklar áhyggjur af þessari þróun sem þar hefur verið á undanförnum árum, að skipin hafa streymt hvert af öðru í burtu.
    Þegar kvótinn hefur verið til umræðu hér í þinginu

hafa menn deilt um það hvað hann skuli vera lengi. Ég er að hallast að því að við komumst ekkert út úr þessu kvótakerfi, kvótinn sé kominn til að vera. Og ef svo er, sem ég hygg að sé staðreynd, er ekkert vit í öðru en að hafa hann ótímabundinn, lögum má alltaf breyta, en það sé ekki staðið í því á eins eða tveggja ára fresti að gera uppskurð á þessu kerfi sem skapar óöryggi í öllum rekstri, óvissu sem verður að eyða.
    Ég verð að játa það að mér finnst margt gott í grg. frv. og vissulega væri gaman að geta átt þátt í að breyta stjórnun fiskveiða í þá veru að allir fái sitt, eins og þeir vilja, en ef takmarkanir eru fyrir hendi er mjög ólíklegt að takist að búa svo um hnútana að afburðamennirnir fái að njóta sín eins og hér stendur einhvers staðar.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. en fagna því að þetta stórmál, stjórnun fiskveiða, er til umræðu hér og þakka flm. sérstaklega fyrir að hafa komið því til leiðar.