Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Frv. sem við ræðum hér er nauðsynjamál og framfaramál og ég mun gera mitt til þess að það megi hljóta afgreiðslu hér í þinginu fyrir þinglok. Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið væntanlega til meðferðar sé ég ekki ástæðu til þess af minni hálfu að fara hér út í einstök efnisatriði málsins. Það er margt sem ýtir á eftir afgreiðslu frv. og stefnumörkunar varðandi ráðstafanir gegn umhverfismengun vegna einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Lögfesting á bruggun áfengs öls hér á landi er eitt af þessu, svo og mjög aukin notkun á einnota umbúðum fyrir drykkjarvörur. Alþingi hefur lýst vilja sínum í þessu efni með samþykkt þáltill. sem hv. síðasti ræðumaður var 1. flm. og frumkvæðisaðili að og þannig er vart að efa að þingið muni standa saman um afgreiðslu þessa máls þótt með einhverjum breytingum verði frá upphaflegu frv. eins og þegar liggja fyrir tillögur um frá hv. Ed.
    Ég held að það gjald sem hér er lagt til grundvallar sé síst of hátt, sú hámarksviðmiðun sem þar er á ferðinni, því að miklu skiptir að sjálfsögðu að það verði hvetjandi til þess að einnota umbúðum verði skilað til endurvinnslu. Væntanlega erum við hér aðeins að stíga aðeins eitt fyrsta skrefið til þess að taka myndarlega á þessum málum að því er varðar lausn á þeim mikla umhverfisvanda sem stafar af umbúðum og ónýttum vörum af öllu tagi og ég vildi gjarnan sjá fleiri á eftir fylgja eins og það frv. sem sýnt hefur verið hér í þinginu í handriti varðandi endurvinnslu brotamálma. Ég vona að næsta Alþingi beri gæfu til að fjalla um það mál og við fáum það hér fram snemma á þingi til þess að taka á því einnig, þannig að brugðist verði við þeim vanda sem þar er við að fást og þeim miklu umhverfisspjöllum sem brotamálmar valda og þá ekki síst flök af bifreiðum.
    Hv. 1. þm. Reykv. ræddi hér ýmis hugsjónamál Sjálfstfl. í tengslum við þetta frv. eins og það að hafa sem allra minnst af rekstri á vegum ríkisins og ég ætla ekkert að fara að ræða það sérstaklega við hv. þm. Ég er enginn sérstakur áhugamaður um ríkisrekstur sem slíkan. Hins vegar finnst mér að ekki eigi að gera það að neinu trúaratriði að ríkið komi ekki inn í atvinnurekstur þegar um er að ræða hvatningu og í rauninni brautryðjendastarf sem ekki er víst að einkareksturinn hafi áhuga á eða einkaaðilar eins og hér er um að ræða. Sumt af því sem Sjálfstfl. hefur verið að knýja fram í sambandi við afnám ríkisrekstrar hefur ekki leitt til neinna sérstakra minnisvarða yfir einkarekstrinum án þess að ég ætli að fara út í umræðu um það sérstaklega. Það eru því fleiri en ein hlið á þessum málum þó að ég endurtaki það að ég er enginn sérstakur aðdáandi ríkisrekstrar og hef aldrei verið það þó að hann eigi fyllsta rétt á sér og ekki síst þegar um stórrekstur er að ræða þar sem einkaaðilar í okkar litla samfélagi ráða ekki við málin vegna takmarkaðs fjármagns eða áhugaleysis.
    Hér kom einnig inn í umræðuna af hálfu hv. 1. þm. Reykv. það hugsjónamál Sjálfstfl. að halda

umhverfismálunum á dreif í stjórnkerfinu og viðhalda því fornaldarástandi sem ríkir hér í þeim efnum. Það hefur verið rætt hér í þinginu áður og ég ætla ekki að fara út í umræðu um það nema aðeins að leiðrétta það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. um það að á Norðurlöndunum væru menn að hverfa frá þeirri stefnu sem þar var mörkuð fyrir 15 árum eða svo í reynd, að setja á fót umhverfisráðuneyti, m.a. í Danmörku og Noregi. Það er verið að endurtaka fullyrðingar um þetta efni hér á Alþingi, ég veit ekki í hvaða tilgangi. Ég heimsótti þessi ráðuneyti í nóv. sl., bæði í Danmörku og Noregi, og gekk úr skugga um það að þar er ekki nein stefnubreyting á ferðinni í þessum efnum. Hitt hefur alltaf verið ljóst að umhverfismálin verða ekki leyst af einu ráðuneyti. Þó að það sé æskilegur og nauðsynlegur stjórnunaraðili þessara stöðugt vaxandi mála nú sem menn hafa fengið vaxandi skilning á þó að vandamálið hafi lengi verið til staðar, þ.e. umhverfisröskun og nauðsyn á samhentum tökum ríkisvaldsins í þeim efnum, þá verða þar auðvitað fleiri til að koma, og það er ekki skilningur þeirra sem leggja fram tillögur um umhverfisráðuneyti hér á Íslandi að það eigi að axla ábyrgð á þeim málum í einstökum atriðum, heldur þvert á móti vera aðeins stjórnunaraðili þeirra mála og tryggja að á þeim sé haldið með almannaheill í huga en síðan að sem flestir verði gerðir ábyrgir fyrir sínum gerðum. Það er inntak þeirrar stefnu sem hér liggur fyrir og hefur verið rædd og ríkisstjórnin hefur tekið undir með framlagningu frv. hér í þinginu um umhverfisráðuneyti.
    Ég mun stuðla að því, virðulegur forseti, að þetta mál nái fram að ganga sem við ræðum hér og er þess fullviss að um það verður góð samstaða hér í þinginu.