Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Vegna spurningar hv. 1. þm. Reykv. vil ég segja að ég skal ekki leggjast gegn því að nefndin fái að skoða málið aftur og geti kallað fyrir sig einhverja aðila. En ég tel afar nauðsynlegt að málið geti komið til afgreiðslu fyrir helgina. Mér er tjáð að gert sé ráð fyrir fundum á föstudag og laugardag og það ætti þá ekkert að vera því til fyrirstöðu.
    Út af spurningu hv. þm. um ný gögn í málinu, þá hef ég þau ekki. Það má segja að það nýjasta, ef menn vilja tengja þetta svo mjög lánskjaravísitölunni eins og gert hefur verið, sé samningur sá sem gerður hefur verið við lífeyrissjóðina. Gildir nýja vísitalan eins og nú er samkvæmt því samkomulagi. Ég vek hins vegar athygli á því að ýmsir, eins og m.a. hv. 1. þm. Suðurl. sem barði í borðið, sögðu við 1. umr. um þetta mál að nauðsynlegt væri að setja lög um launavísitölu sem er reiknuð. Hún er reiknuð, launavísitalan, og það hafa allir aðgang að henni, hver sem það vill. Á því verður út af fyrir sig ekki breyting. Hér var sagt, hygg ég, þegar málið var rætt áður að jafnvel hagstofustjóri hefði lagst gegn málinu. Ég óska eindregið eftir því að hann verði kallaður fyrir aftur því að hann segir mér að það sé herfilegur misskilningur, leiðrétti það við mig að fyrrabragði, sagðist telja æskilegt að það verði sett lög um launavísitölu sem honum er gert að reikna samkvæmt engum lagabókstaf. Hann sagðist hins vegar hafa gert grein fyrir ýmsum erfiðleikum í að reikna launavísitölu. Það er óumdeilt. Ég vil koma þeirri ósk hér með á framfæri.
    Hér hefur verið talað í sama orði um launavísitölu og lánskjaravísitölu. Ég lít svo á að þetta séu að því leyti aðskild mál að lög um launavísitölu séu æskileg hvað svo sem gert verður við hana í sambandi við lánskjörin.
    Ég vek athygli á því, af því að hér var talað um að þetta hefði orðið óhagkvæmt launþegum nú, að ég held að það sé ekki rétt. Samkvæmt þeim útreikningum sem liggja fyrir frá Seðlabanka veldur verðlagshækkun t.d. miklu meiri hækkun á raungengi en laun. Raungengi á grundvelli verðlags hækkar um 7% að mati Seðlabankans frá upphafi ársins, en raungengi á grundvelli launa um 2,7% frá 1. ársfjórðungi sem sýnir að verðlagshækkanir hafa þarna miklu meiri áhrif og meiri tengsl við það sem hækkar minna verða þá til þess að draga úr hækkun lánskjaravísitölu eins og reyndar hefur verið hingað til á þessu ári.
    En aðalerindi mitt hingað var að leggjast ekki gegn því og mæla þá með því að nefndin fái málið enn til meðferðar, en leggja áherslu á að það megi koma til afgreiðslu fyrir vikulokin.