Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég tek í upphafi undir þær óskir sem hér hafa verið settar fram um að 2. umr. verði enn frestað til þess að hv. fjh.- og viðskn. geti tekið málið til umfjöllunar. Umræðu var frestað á sínum tíma að beiðni hæstv. forsrh. vegna þess ágreinings sem þá var uppi á milli ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna um hina nýju vísitölu og sá ágreiningur stendur enn.
    Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. greindi rangt frá þeim samningum sem ríkisstjórnin hefur gert mjög nýlega við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup á árinu 1989. Hæstv. forsrh. hélt því fram í ræðu sinni að hinn nýi samningur fjmrh. við lífeyrissjóðina gerði ráð fyrir því að hin nýja vísitala gilti í þeim samningum.
    Í þessum samningi segir, með leyfi forseta: ,,Verðtrygging samkvæmt II. kafla samkomulags þessa miðast við lánskjaravísitölu samkvæmt VII. kafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. Aðilum er ljóst að ágreiningur ríkir um gildi lánskjaravísitölu þeirrar sem Seðlabanki Íslands auglýsti hinn 23. jan. 1989 með heimild í reglugerð nr. 18/1989. Í þessu samkomulagi felst engin afstaða til þessa ágreinings.``
    Með öðrum orðum, hér er skýrt tekið fram að sú lánskjaravísitala sem höfð er til viðmiðunar er sú vísitala sem ákveðin var á grundvelli Ólafslaga frá 1979 og í engu er eytt þeim ágreiningi sem uppi var á milli aðila. Það liggur fyrir að umfangsmikil málaferli munu fara fram vegna þess að ekki hafa tekist sættir á milli ríkissjóðs og lífeyrissjóðanna og um langan tíma mun þess vegna verða mikil óvissa á þessu sviði, hvaða vísitala sé í raun og veru í gildi og hvaða heimildir hæstv. viðskrh. hafði til að gefa út reglugerð um breytta vísitölu, fyrst og fremst vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki viljað taka á þessu máli með raunhæfum hætti. Ég minni á að í athugasemdum með því frv. sem hér er til umræðu tók hæstv. forsrh. fram að nauðsynlegt væri að setja lög um launavísitölu ef taka ætti upp breytta lánskjaravísitölu þar sem laun hefðu ákveðið vægi. Þrátt fyrir þessi ummæli hæstv. forsrh. gaf hæstv. viðskrh. út reglugerð án þess að lagastoð væri fyrir hendi. Það er einmitt þetta framferði hæstv. viðskrh. sem hefur skapað þessa miklu óvissu.
    En kjarni málsins er sá að þessum ágreiningi hefur ekki verið eytt. Það hefur ekki í samningum við lífeyrissjóðina verið samið um hina nýju vísitölu heldur er þar þvert á móti vísað í þær ákvarðanir sem teknar voru um vísitölu á grundvelli laga nr. 13/1979.
    Það samkomulag sem ríkissjóður gerði við lífeyrissjóðina er svo um margt annað athyglisvert, ekki síst þær ákvarðanir sem þar eru teknar um vexti. Lífeyrissjóðirnir fá núna tryggingu fyrir því að vextir eru í raun ákveðnir eftir á miðað við almenna markaðsvexti á árinu á undan. Ríkissjóður fær enga tryggingu fyrir því að á vöxtum í viðskiptum við lífeyrissjóðina sé ákveðið þak. Lífeyrissjóðirnir buðust til þess að gera þessa samninga án þess að nokkuð væri tekið fram um vexti, en síðan yrðu reikningarnir gerðir upp eftir á miðað við reynslu af vöxtum á almennum markaði. Fjmrh. óskaði hins vegar eftir því

að í stað þess að ákveða ekkert um vexti yrði tekið fram að þeir yrðu a.m.k. 6% til að byrja með og síðan 5%. Með öðrum orðum, hann óskaði eftir því að það yrði ákveðið lágmark í þessum vöxtum þar sem lífeyrissjóðirnir höfðu áður boðist til þess, eftir því sem fram hefur komið í fréttum, að ekkert yrði tekið fram í upphafi heldur yrði einvörðungu um að ræða leiðréttingu eftir á. Samband almennra lífeyrissjóða hefur gefið út fréttabréf þar sem segir að hefðu þessar reglur verið í gildi á síðasta ári hefðu sjóðirnir fengið talsvert hærri vexti en þeir fengu í raun og veru vegna þess að þá var til þess séð eins og jafnan áður að setja ákveðnar skorður við því hvað vextirnir í viðskiptum við lífeyrissjóðina gætu farið hátt upp. Í þessu tilviki voru engar slíkar skorður settar og því er miklu meiri lausung í þessum samningum en nokkru sinni fyrr og minni fyrirstaða en áður af hálfu ríkissjóðs en í fyrri samningum.
    Ég skal svo ítreka, herra forseti, þá ósk, sem hér hefur komið fram, að 2. umr. verði frestað og hv. fjh.- og viðskn. taki málið til nánari skoðunar áður en þessari umræðu verður haldið áfram.