Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Það er langt um liðið frá því að þetta mál var hér til umræðu. Ég bjóst satt að segja við því að málið kæmi ekki á dagskrá framar og má um það segja að farið hefði fé betra. Ég var á mælendaskrá þegar umræðu var frestað, en þar sem ég bjóst ekki við frekari umræðu birti ég ræðu mína í blaði. Þar sem málið er komið aftur til umræðu vil ég, með leyfi forseta, vitna til greinar eftir mig varðandi þetta mál sem birtist í DV 6. mars sl.
    Skömmu eftir að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson myndaði fyrra ráðuneyti sitt 1983 beitti hann sér fyrir því að kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi. Hið sama var hins vegar ekki látið gilda um lánskjaravísitöluna. Haldið var áfram að hækka inn- og útlán samkvæmt henni, enda þótt sambærilegum launauppbótum væri hætt. Mörgum var á þeim tíma undrunarefni að forsrh. og ríkisstjórn hans skyldi mismuna launþegum á þennan hátt til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur. Hitt þótti enn furðulegra að A-flokkarnir, sem telja sig sérlega málsvara launþega, lögðu blessun sína yfir þessa ráðstöfun. Þeir hafa jafnframt gerst aðilar að lögum um beina kaupstöðvun og þannig líka hindrað samningsbundnar kjarabætur launþega meðan verð fjármagns leikur lausum hala. Allir stjórnmálaflokkar bera því ábyrgð á þessu kerfi. Er ekki mál að linni?
    Um þessa tilhögun, að verðtryggja fjármagn en ekki vinnu, er það annars að segja að hún telst til pólitiskra mistaka af alvarlegustu gerð. Lánskjaravísitalan hefur fóðrað verðbólguna og leitt yfir landið opinbert vaxtaokur sem ekki eru dæmi um í sögunni. Þetta vaxtaokur hefur komið útflutningsatvinnuvegunum á kaldan klaka og lagt heimili í rúst. Urmull gjaldþrota hefur orðið en fjölskylduharmleikir og sjálfsvíg tíðari en áður hefur þekkst.
    Það þarf ekki að koma neinum á óvart eftir öll þessi ósköp að hæstv. forsrh. vill nú lánskjaravísitöluna á bak og burt. Hann hefur gefið ítrekaðar yfirlýsingar þess efnis. En hann getur ekki látið sitja við orðin tóm og skotið sér undan ábyrgð með því að segja að vondir menn í ríkisstjórn hans vilji hafa vísitöluna áfram. Forsrh. er höfuð ríkisstjórnarinnar og hefur ráð hennar í hendi sér meðan hún er við völd.
    En þarna er einhver maðkur í mysunni. Fyrir Alþingi liggur nú frv. ríkisstjórnarinnar um nýja launavísitölu sem hér er í umræðu. Hún á ekki að verðtryggja launin eins og gamla kaupgjaldsvísitalan gerði. Hún á þvert á móti að ganga inn í lánskjaravísitöluna og magna hana upp. Í 2. gr. segir að hún skuli miðuð við breytingu heildarlauna allra launþega. Það táknar að kauphækkun hátekjumanna, t.d. bankastjóra og framkvæmdastjóra, leiðir til hækkunar lánskjaravísitölu og aukinnar skuldabyrði lágtekjufólks, t.d. í verkamannabústöðum. Í sömu grein segir enn fremur að vísitalan taki til eftir- og næturvinnu að meðtöldum starfs- og launatengdum álögum og kaupaukum. Það eru því ekki aðeins

launahækkanirnar sem koma fram í lánskjaravísitölunni heldur einnig vinnuálag. Af þessu leiðir að þeir sem geta ekki framfleytt sér af daglaunum einum saman og taka því að sér yfirvinnu ýta undir hækkun launavísitölunnar, þar með undir hækkun lánskjaravísitölu og hækkun íbúðalána samkvæmt henni.
    Ljóst má vera af þessu að hér er verið að fara úr öskunni í eldinn. Lánskjaravísitalan er gerð að svipu á verkamenn og aðra launþega. Ef þeir voga sér að knýja fram kjarabót eða lengja vinnutíma sinn er þeim refsað nálega samstundis með hækkun lánskjaravísitölu og aukinni skuldabyrði.
    Deilt er um hvort nýja lánskjaravísitalan sé lögleg. Spurningin snýst að mínum dómi ekki um það heldur um hitt, hvort verðtrygging fjárskuldbindinga sem slík er lögleg þegar aðrir þættir í hagkerfinu eru ekki verðtryggðir líka. Gamla lánskjaravísitalan, sem er í engu samræmi við verðmætasköpun þjóðfélagsins, hefur leitt til eignaupptöku bæði hjá fyrirtækjum og heimilum og slík eignaupptaka stríðir gegn stjórnarskránni. Þetta er málið sem dómstólarnir eiga að skera úr um.
    Að öðru leyti vil ég segja að ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og tek undir óskir um að fresta þessu máli, vísa því aftur til nefndar og ég vildi vona að nánari skoðun nefndarinnar á málinu yrði sú að við þetta mál yrði hætt, að út úr þeirri endurskoðun kæmi það, sem er meginmál að gera, að afnema lánskjaravísitöluna.