Úreldingarsjóður fiskiskipa
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Frv. sem hér er til umræðu og markmið þess eru mjög í anda þess sem Kvennalistinn hefur ætíð stutt. Það má segja að meginmarkmið frv. séu þrjú. Að draga úr afkastagetu fiskiskipastólsins, sem er allt of mikil ef miðað er við afrakstursgetu fiskstofnanna, að koma í veg fyrir að úrelt og gömul fiskiskip séu endurnýjuð með mun afkastameiri fiskiskipum og að sjóðurinn eignist kvóta fiskiskipa sem þó eru ákveðin takmörk sett. Hann geti síðan selt þann kvóta eftir ákveðnum reglum. Allt eru þetta markmið sem Kvennalistinn fellir sig vel við og telur reyndar bráðnauðsynleg.
    Aðeins nánar um hvert markmið. Nr. 1 og 2, eins og ég taldi upp, eru reyndar nátengd því að afkastageta íslenska fiskiskipastólsins í hlutfalli við afrakstursgetu fiskstofnanna hlýtur að vera eitt helsta áhyggjuefni allra hugsandi Íslendinga. Það samræmist engum skynsamlegum sjónarmiðum að allt of mörg skip eltist við allt of fáa fiska. Það samræmist engan veginn markmiðum um hindrun ofveiði og verndun og uppbyggingu fiskstofna og það samræmist heldur ekki markmiðum um aukna hagkvæmni og minni tilkostnað.
    Það hefur gengið erfiðlega að stöðva eða minnka afkastagetu íslenska fiskiskipastólsins og nægir í því sambandi að nefna óeðlilega fjölgun frystitogara nú undanfarið og það að í stað gamalla skipa koma ný sem eru svo margfalt betur útbúin til veiða að afkastageta þeirra er meiri en þeirra skipa sem leyst eru af hólmi.
    Árlega er veitt meira en sérfræðingar telja ráðlegt. Það er í þessu eins og svo mörgu öðru að mönnum reynist erfitt að líta nógu langt fram á veginn og stundargróði er meira metinn en framsýni. Við virðumst seint ætla að læra að náttúran er ströng móðir en réttlát. Hún umber börnum sínum margt en hirtir þau að lokum ef þau þverskallast of lengi.
    Ýmislegt hefur orðið til þess nú að undanförnu að ýta illyrmislega við okkur. Sumt tengist fiskveiðum okkar ekki beint enn þá, eftir því sem við höldum, en kann að gera það fyrr en varir. Kjarnorkukafbátsslysið við Bjarnarey minnti okkur á hve nálæg og raunveruleg hættan er sem yfir vofir hvert einasta augnablik sólarhringsins. Fréttir af eiturefninu díoxín í þorskalýsi kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og fréttir af eiturefnum af ýmsu tagi í grindakjöti eru af sama toga. Og við spyrjum: Er fiskurinn okkar virkilega ekki hreinn og ómengaður? Er hafið umhverfis landið og á helstu fiskimiðum orðið óhreint? Það vissu allir að að því mundi að óbreyttu koma, en meðan það er ekki orðin staðreynd viljum við helst loka augunum og telja sjálfum okkur trú um að sá dagur sé langt undan að við þurfum að standa andspænis alvarlegum mengunarvandamálum.
    Þó að þessi tilvik tengist frv. ekki beint er þó vert að muna að allt ber þetta að sama brunni. Verndun náttúru í víðasta skilningi, hindrun ofveiði og verndun og uppbygging fiskstofna eru nátengd verndun hafsins, þ.e. að koma í veg fyrir mengun og eyðileggingu

þess. Afleiðing kæruleysis eða skammsýni á einu sviði náttúruverndar teygir sig fljótlega inn á önnur. Og það er svo sannarlega kominn tími til að við tökum á hverjum þætti af fullri alvöru en bíðum ekki eftir stórslysi.
    Í ljósi alls þessa er það spurning hvort frv. gengur nógu langt. Það er í sjálfu sér athyglisvert að í því fyrirkomulagi sem nú ríkir í stjórn fiskveiða er augljóslega ekki innbyggður hvati til hagræðingar og hagkvæmni. Menn hanga á skipum eins og ormar á gulli og reyna með öllum ráðum að stækka þau og auka afkastagetu þeirra. Það hefur að stórum hluta til mistekist að fylgja yfirlýstum markmiðum um fækkun fiskiskipa og minnkun flotans í heild og afkastagetu hans. Það er eðlileg afleiðing þess að binda kvóta við skip.
    Eins og menn e.t.v. muna lagði Kvennalistinn í fyrra fram ítarlegar brtt. við frv. um stjórn fiskveiða þar sem við lögðum til nýja tilhögun þannig að kvóti bindist ekki skipum heldur byggðarlögum. Við búum hins vegar við þá staðreynd að skip og kvóti eru tengd og þó að við kvennalistakonur vonum auðvitað og séum raunar sannfærðar um að menn vilji fyrr eða síðar sjá að sér í þessum efnum, þá neitum við því ekki að þörf fyrir úreldingarsjóð er meiri en ella. Með þessu er ég ekki að segja að þó að svo væri komið að klippt væri á tengsl skips og kvóta hyrfi þörfin fyrir úreldingarsjóð. Það verður sífellt að gæta þess að menn sæki ekki sjó einungis vegna þess að þeir geti ekki hætt og sjálfsagt að auðvelda það með sama hætti og við komum til móts við bændur sem vilja bregða búi án þess að þeir verði fyrir of miklum fjárhagslegum skakkaföllum.
    Ýmsir hafa fundið hugmyndinni um úreldingarsjóð allt til foráttu, m.a. það að hann sé ekkert annað en dulbúinn auðlindaskattur. Það má e.t.v. til sanns vegar færa, en hvað er rangt við það að þeir aðilar sem fengið hafa aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar leggi sitt af mörkum umfram aðra til verndunar þessarar sömu auðlindar? Það er löngu kominn tími til að gerðar séu miklu meiri og strangari kröfur til útgerðarinnar í þessum efnum. Útgerðarmenn, skipaeigendur og aðrir sem aðgang hafa að veiðum eiga ekki fiskinn í sjónum. Að svo miklu leyti sem hægt er að tala um eignarhald á fiski
í sjónum á þjóðin þennan fisk, ekki einstaklingar eða fyrirtæki. Þeir eru í raun umboðsmenn eða verktakar sem annast veiðar fyrir hönd þjóðarinnar allrar og bera því þunga ábyrgð. Því er ófyrirgefanlegt hve litla ábyrgðartilfinningu þessir sömu aðilar hafa oft gagnvart heildinni.
    Sem dæmi um það má nefna að 70% fiskvinnslufyrirtækja í landinu eru í eigu útgerðarfyrirtækja og þrátt fyrir þessa staðreynd er lítið gert til að samhæfa þessa nátengdu og raunar ósundurslítandi þætti. Það er lítið sem ekkert gert til að aðlaga aflatoppa að hámarksafkastagetu vinnslunnar. Áhersla á tæknibreytingar í fiskvinnslu hefur ekki haldist í hendur við tæknibreytingar á fiskiskipastólnum. Það að auka verðmæti eftir að

hráefnið er komið í land er ekki forgangsmál og meðhöndlun hráefnis oft slæm. Siglt er með afla án tillits til hagsmuna fiskvinnslunnar og laun í landi við hráefnisvinnslu eru ekkert sambærileg við laun þeirra sem draga fiskinn úr sjó. Allt of lítið er lagt upp úr nýtingu hráefnis, t.d. er aðeins um það bil 30% nýting á frystitogurunum.
    Miklar gengis- og verðsveiflur ríkja á fiskmörkuðum þar sem framboð og eftirspurn ræður verði og það er í raun óþolandi að rekstur fiskvinnslu skuli vera svo viðkvæmur fyrir ytri sveiflum. Það sýnir best sú staðreynd að eftir eitt mesta aflaár í sögu íslensku þjóðarinnar, árið 1988, skuli mörg fiskvinnslufyrirtækin ramba á barmi gjaldþrots. Þannig er flest með sama móti. Öllu máli skiptir að moka sem mestu upp en minna hirt um aðra þætti þessarar undirstöðuatvinnugreinar landsins.
    Það er e.t.v. hægt að segja að ég hafi vikið um of frá efni frv. en þessi mál verða hvorki skoðuð eða skilin nema í samhengi. Aldrei er meiri þörf á góðri nýtingu og hagkvæmni en þegar ljóst er að stemma þarf stigu við veiði. Þá ræður úrslitum hvernig farið er með hvern fisk. Aldrei er meiri þörf á rannsóknum, bæði á markaði og til nýsköpunar, sem leiða til betri nýtingar og betra verðs, meiri hagkvæmni og meiri framleiðni. Að öllu þessu verður að hyggja.
    Í ljósi alls þessa verður að líta á Úreldingarsjóð sem nokkurs konar plástur á vond sár en hann er þó skref í átt til að stöðva rányrkju. Við kvennalistakonur munum því að öllum líkindum styðja þetta frv. jafnframt því sem við munum áfram leggja fram tillögur sem við álítum vera til úrbóta í stjórn fiskveiða og vinnslu.