Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kem hingað upp virðist kannski einhverjum ekki stórt, en það er fyrirsögn á dagskrá þessa fundar sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Dagskrá sameinaðs Alþingis föstudaginn 5. maí 1989 kl. 12 miðdegis.``
    Ég leyfi mér að vekja á því athygli að ég minnist þess ekki nokkru sinni að hafa heyrt tekið svo til orða eða séð á prenti eins og hér segir, ,,kl. 12 miðdegis``, heldur kl. 12 á hádegi. Þótt sumum kunni að þykja að þetta sé ekki merkilegt efni finnst mér við hæfi að Alþingi leitist við að halda í heiðri eðlilega og gamalgróna íslenska málvenju og segja í þingskjölum í ósamræmi við það ,,kl. 12 á hádegi``.
    Ég vænti þess að hæstv. forseti sjái til að slíkri málvenju verði fylgt. --- Ef hæstv. forseti mætti hlýða á mál mitt án þess að stofna til annarra funda úr forsetastóli var ég að bera fram þá hógværu og sjálfsögðu ósk að hæstv. forseti hlutist til um það og sjái til þess að íslensk málvenja sé ekki brotin í fyrirsögnum þingskjala og hér standi ,,kl. 12 á hádegi``.