Fyrirspurn um útflutning á ísfiski
Föstudaginn 05. maí 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Áður en gengið er til dagskrár um fsp. vildi ég leyfa mér að taka til máls um þingsköp.
    Samkvæmt 31. gr. þingskapalaga leyfði ég mér í marsmánuði að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. og var hún borin fram 22. mars. Þessi fsp. var 359. mál þingsins á þskj. 666. Það dróst nokkuð að henni yrði svarað. Ég gerði athugasemd hér á þingi. Hæstv. utanrrh. gaf skýringar á þeim drætti sem ég mat gildar. Svar barst síðan þinginu 26. apríl og er birt á þskj. 972 og hefur verið dreift til þingmanna.
    Þar sem þetta svar er ekki fullnægjandi með vísan til fsp. á þskj. 666 og ráðherra hefur þar af leiðandi ekki veitt þau svör við fsp. sem þingmenn hafa rétt til að bera fram sá ég mig knúinn til að leita aðstoðar forseta Sþ. til að fá fram svör við umræddri fsp. og lagði fram bréf til forseta Alþingis í morgun varðandi þetta mál og vildi leyfa mér að lesa það bréf upp eins og það er, með leyfi forseta.
    ,,Alþingi, 5. maí 1989.QR
    Forseti sameinaðs Alþingis,QR
    frú Guðrún Helgadóttir.QR
    Með vísan til 31. gr. þingskapalaga bar ég fram fsp. til utanrrh., 359. mál, á þskj. 666, varðandi útflutning á ísfiski í gámum. Var fsp. send til ráðherra 22. mars sl. Svar barst frá ráðherra 26. apríl og hefur því verið útbýtt á þskj. 972. Þar sem í svari ráðherra er ekki að finna fullnægjandi svar við 2. lið fsp. eins og spurt var óska ég eftir því með vísan til 3. gr. laga nr. 12/1986 að Ríkisendurskoðun verði falið að gera skýrslu þar sem verður að finna fullnægjandi svar við 2. tölul. nefndrar fsp.``
    Undirritað af mér það bréf sem ég las hér upp og lagði til forseta í morgun.