Söluátak spariskírteina
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Á sl. ári var gert samkomulag við bankakerfið um kaup og sölu á spariskírteinum ríkisins. Í þessu samkomulagi fólst ákveðin sölutrygging. Þessi samningur var ekki endurnýjaður, en hann hafði í för með sér að ekki var sinnt sem skyldi að byggja upp markað meðal almennings fyrir spariskírteini ríkissjóðs eða kosti þessa sparnaðarforms þótt ljóst sé að eigi efnahagsstjórn í landinu að takast með árangursríkum hætti sé nauðsynlegt að byggja upp varanlegan og stöðugan markað fyrir spariskírteini ríkissjóðs líkt og tíðkast í helstu nágrannalöndum okkar.
    Ég segi þetta hér í upphafi vegna þess að hluti af þeirri kynningarherferð sem fram hefur farið undanfarna mánuði er undirbúningsstarf og uppbyggingarstarf sem ætlað er að bera árangur til lengri tíma. Hins vegar er mjög ánægjulegt að þegar á fyrstu vikum og mánuðum þessarar herferðar hefur árangurinn orðið mun meiri en flestir bjuggust við þegar ýmsum nýjum hugmyndum var ýtt úr vör eins og t.d. því áskriftarkerfi sem kynnt var fyrir nokkrum mánuðum. Ég vænti þess að þetta starf muni þess vegna halda áfram að bera árangur og vil í því sambandi geta þess hér að ákveðið hefur verið að ráða sérstakan stjórnanda þessarar sölustarfsemi spariskírteina ríkissjóðs til þess að geta byggt þennan þátt í innlendri fjármögnun ríkissjóðs upp með sem skipulögðustum og árangursríkustum hætti.
    Ég mun nú svara þeim spurningum sem hv. þm. Halldór Blöndal rakti hér.
    Varðandi fyrstu spurninguna er fjöldi þeirra sem skráð höfðu sig fyrir áskrift að spariskírteinum ríkissjóðs 15. apríl sl. 1919 einstaklingar. Það eru nokkru fleiri en þeir sem að þessu stóðu bjuggust við þegar því var ýtt úr vör því að flestir töldu að það mundi taka þó nokkurn tíma að þessi nýjung festi rætur.
    Varðandi spurningu nr. 2 hafa þessir 1919 áskrifendur skrifað sig fyrir tæpum 15 millj. kr. á hverjum mánuði þannig að á hverjum mánuði taka þessir tæplega 2000 einstaklingar til sín 15 millj. af spariskírteinum ríkisins eða nákvæmlega 14 millj. 920 þús. Heildarkostnaður í lok mars var 3 millj. 934 þús. eða tæpar 4 millj. og skiptist þannig: auglýsingagerð 1 millj. 551 þús., birting auglýsinga í dagblöðum 1 millj. 181 þús. og birting auglýsinga í sjónvarpi og útvarpi 1 millj. 202 þús. Þar sem verið er að bjóða þessa áskrift í fyrsta sinn er alveg ljóst að hluti af þessum 4 millj., sem hefur verið varið, er fjármagn sem ætlað er að leggja ákveðinn grundvöll bæði varðandi vinnuna sjálfa og kynningarnar.
    Hvað snertir spurningu nr. 4 hefur heildarsala spariskírteina til loka mars verið 596 millj. kr. Sala spariskírteina hefur hins vegar á síðustu vikum glæðst allverulega þannig að á þeim fjórum vikum tæpum sem liðnar eru frá lokum mars bættust við rúmlega 300 millj. kr. þannig að heildarsalan fram til 28. apríl er 910 millj. kr. frá áramótum. Á sama tíma var innlausn án vaxta 1 milljarður 270 millj. kr. og 1

milljarður 563 millj. með vöxtum. Samkvæmt fjárlögum var heildarinnlausn án vaxta áætluð 3 milljarðar 75 millj. kr. og með vöxtum 4 milljarðar 100 millj. kr.
    Einnig var spurt um að hve miklu leyti þessi reynsla í sölu samræmist áætlunum fjmrn. Áætlanirnar um sölu fyrstu þrjá mánuði árins voru fyrir janúar 300 millj. kr., fyrir febrúar 300 millj. kr. og mars 150 millj. kr. eða samtals 750 millj. kr. fyrir þessa fyrstu þrjá mánuði, en hún var í reynd eins og ég vék að áðan tæpar 600 millj. kr. fyrir þessa fyrstu þrjá mánuði. Áætlun um innlausn fyrir þetta sama tímabil var sem hér segir: Fyrir janúar 660 millj. kr., fyrir febrúar 80 millj. kr. og fyrir mars 80 millj. kr. eða samtals 820 millj. kr. Hins vegar er rétt að geta þess að ástæðan fyrir því að innlausnin var meiri er sú að einn stór aðili innleysti bréf fyrir 450 millj. kr. í flokki spariskírteina sem báru 7% vexti og þar sem kjör á þessum flokki bréfa voru betri en verið var að bjóða af spariskírteinum núna var ekki gert ráð fyrir nema óverulegri innlausn af þeim bréfum. Þess vegna má að vissu leyti segja að þessi innlausn þessa eina aðila hafi verið út frá hans fjárhagslegum sjónarmiðum nokkuð hæpin, en ef hún er tekin út úr dæminu er ljóst að innlausn hefur í grófum dráttum verið í samræmi við þá áætlun sem gerð var fyrir árið.