Sykurverksmiðja
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Á þskj. 808 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til iðnrh. um sykurverksmiðju.
    Það var vorið 1975 sem Þórarinn Sigurjónsson flutti fyrst þáltill. á Alþingi um þetta mál, en þá hafði Hinrik Guðmundsson verkfræðingur gert athugun á hagkvæmni sykurhreinsunarstöðvar á Íslandi. Niðurstaða hans varð sú að Hveragerði væri æskilegur staður fyrir slíka verksmiðju og þar yrði hún arðbært fyrirtæki og þjóðhagslega hagkvæm.
    Vorið 1977 samþykkir Alþingi síðan þáltill. um hagkvæmnisathugun á byggingu sykurhreinsunarverksmiðju á Íslandi. Var finnska fyrirtækið Finska Socker AB fengið til þess að gera skýrslu um málið og var hún tilbúin í október 1977. Þar var lagt til að framleiða sykur hérlendis.
    Á árinu 1978 er stofnað Áhugafélag um sykuriðnað hf. Beitti félagið sér fyrir því í samvinnu við Finska Socker AB með stuðningi Norræna iðnaðarsjóðsins að vinna ítarlega skýrslu um sykurvinnslu í Hveragerði. Í niðurstöðum hennar segir m.a.:
    ,,Þjóðhagsleg áhrif fjárfestingarinnar verða í fyrsta lagi tiltölulega jafnt og hóflegt sykurverð. Í öðru lagi næst talsverður gjaldeyrissparnaður, um það bil 15--18 millj. finnskra marka á ári. Þar fyrir utan er hægt að reikna með hagstæðum áhrifum og atvinnuástandi þar sem verksmiðjan býður upp á ný störf fyrir 60--70 manns. Einnig hlýtur hin nýja tækni sem berst til landsins að vera áhugaverð.
    Árið 1980 skipaði iðnrn. starfshóp til þess að yfirfara þessa skýrslu og skilaði hann niðurstöðum um það árið 1981. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu lagði þáv. hæstv. iðnrh. fram frv. til l. um sykurverksmiðju í Hveragerði í mars 1982, en frv. náði ekki fram að ganga á því þingi. Í febrúar 1983 svaraði þáv. iðnrh. á Alþingi fsp. Þórarins Sigurjónssonar um framgang þessa máls og kveður hann þá iðnrn. enn vera að vinna að nánari athugun málsins. Síðan hefur ekkert komið fram um þetta mál hér á Alþingi eða opinberlega frá iðnrn. og því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnrh.:
,,1. Hvað hefur iðnrn. gert til að undirbúa byggingu sykurverksmiðju í Hveragerði síðan iðnrh. flutti frv. um það mál á Alþingi síðan 1982?
    2. Hvaða áætlanir liggja nú fyrir í ráðuneytinu um framhald þess máls?