Sykurverksmiðja
Föstudaginn 05. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Í tilefni af seinni ræðu hv. fyrirspyrjanda vildi ég nefna það að Áhugafélag um sykuriðnað eða fulltrúi þess hefur haft samband við iðnrn. nokkrum sinnum á sl. ári. Ég mun að sjálfsögðu láta fylgjast með þeim erindum sem félagið flytur og alls ekki leggja stein í götu þess ef samtök geta um það myndast af hálfu einkaaðila eða félaga í atvinnurekstri að hefja slíka framleiðslu. Mínar athugasemdir varða það fyrst og fremst að ég tel óráð að leggja grunn að slíkri framleiðslu með verndarlöggjöf, nýjum tollum eða bönnum, tálmunum á innflutning á þessu hráefni eða þessari landbúnaðarvöru fjarlægra ríkja, en að öðru leyti mun verða greitt fyrir slíku fyrirtæki eins og hverju öðru iðnfyrirtæki.