Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Það er aðeins eitt orð í tilefni af síðustu orðum hv. fyrirspyrjanda. Fyrir Ed. liggur frv. til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla þar sem gert er ráð fyrir því að skólum verði bannað að setja kröfur, tilteknar kröfur varðandi frammistöðu nemenda á grunnskólaprófi áður en þeir eru teknir inn í framhaldsskóla. Þetta er algjört úrslitaatriði að þingið skilji sinn vitjunartíma í þessum efnum og hindri það að menn geti að geðþótta útilokað suma frá því að stunda framhaldsskólanám sem er nefnilega brot á lögunum að öðru leyti og anda þeirra.