Náms- og kennslugögn
Föstudaginn 05. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur hér í ræðu sinni rakið aðdraganda þessa máls og hef ég engu þar við að bæta öðru en því að ég hygg að það hafi ekki komið fram í máli hennar að snemma á árinu 1988 var skipuð nefnd til að gera tillögur um uppbyggingu kennslugagnamiðstöðva í tengslum við fræðsluskrifstofur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef úr ráðuneytinu var þessi nefnd skipuð 4. febr. 1988. Í nefndinni eiga sæti Bergþóra Gísladóttir, tilnefnd af BK, Jón Guðmundsson Námsgagnastofnun, Kristinn V. Jóhannsson, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Pétur Bjarnason, tilnefndur af fræðslustjórum, og Hrólfur Kjartansson án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar.
    Þessi nefnd hafði fjórþætt hlutverk:
    1. Að gera úttekt á þeirri náms- og kennslugagnaþjónustu sem fræðsluskrifstofur bjóða nú þegar.
    2. Að kanna hvaða möguleikar eru á þjónustu kennslumiðstöðvar í Reykjavík við skóla utan höfuðborgarsvæðisins.
    3. Að meta hvaða náms- og kennslugagnaþjónustu er æskilegt að koma upp í tengslum við fræðsluskrifstofur.
    4. Að gera tillögur um á hvern hátt slíkri þjónustu verði best komið á og setja fram áætlun um kostnað.
    Þessi nefnd mun hafa komið saman til nokkurra funda vorið 1988. Það varð hins vegar ljóst, er mér tjáð, að nefndin mundi ekki ljúka tillögugerð fyrir fjárlagatillögur haustið 1989. Formaður nefndarinnar hefur hins vegar heitið mér því að skila mér tillögum sem byggjast á þessum fjórum aðalverkefnum nefndarinnar núna fyrir lok --- ja, það stendur reyndar í byrjun maímánaðar nk. þegar þetta uppkast að svari er skrifað sem er 24. apríl sl. Þannig að það er gert ráð fyrir því að nefndin skili sínu áliti. Með öðrum orðum ætlar hún að fjalla um málið án þess í raun og veru að halda áfram með könnunina því það er eins og hún hafi ekki borið mikinn árangur, menn hafa ekki svarað, og þá ætlar nefndin að gera þetta upp við sig sem slík.
    Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt er nú á fræðsluskrifstofunum, að ég hygg öllum, kominn vísir að slíkum kennslugagnamiðstöðvum sem lána kennslugögn til skóla og þar sem kennarar geta komið og unnið að ákveðnum verkefnum. Við erum þeirrar skoðunar sem höfum nú með að gera málefni menntmrn. að þetta starf eigi að efla um leið og við stefnum að því að efla fræðsluskrifstofurnar eins og m.a. kemur fram í drögum að frv. til laga um breytingu á lögum um grunnskóla sem dreift hefur verið til hv. þm. í handriti.
    Sú starfsemi sem hér um ræðir við fræðsluskrifstofurnar hefur færst mjög í aukana á undanförnum árum og er satt að segja nokkuð jákvæð víða. Jákvætt skref til góðrar skólaþróunar að mínu mati og ég verð var við það, hvort sem maður kemur í fræðsluskrifstofuna á Vestfjörðum eða á Austfjörðum eða á Norðurlandi eystra, svo ég nefni nokkrar, að

það er mikill áhugi á þessu starfi og kennarar sækja mikið með sín málefni til fræðsluskrifstofanna og þessara kennslugagnamiðstöðva og nota talsvert mikið af þeim gögnum sem þarna er hægt að fá. Ég er alveg sammála hv. þm. um að það er mjög mikilvægt að hlúa að þessu starfi. Og ég vænti þess að þegar þessi nefnd skilar áliti þá verði hægt að taka ákvarðanir um næstu skref.