Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Hér á árum áður var Siglósíld lagmetisfyrirtæki í eigu ríkisins. Þetta fyrirtæki skapaði atvinnu fyrir tugi fólks og fyrirtækið stóð við sínar skuldbindingar gagnvart sveitarfélagi og þjónustuaðilum. Lengst af var kvartað undan taprekstri þessa fyrirtækis og undan því að þetta fyrirtæki væri byrði á ríkissjóði. Því lenti þetta fyrirtæki á lista yfir þau fyrirtæki sem ríkið vildi einna helst losa sig við og það þótti sjálfsagt að þetta fyrirtæki væri í einkaeign og má kannski renna mörgum stoðum undir þá skoðun.
    Siglósíld var sem sagt seld eða öllu heldur, eins og að var staðið, rétt á silfurbakka til einkaaðila. Fyrirtækið var ekki auglýst heldur var fyrirtækið selt í lokuðum samningum og þrátt fyrir mikinn áhuga heimamanna á Siglufirði fékk enginn þeirra heimamanna að kaupa hlut í fyrirtækinu nema hann væri annaðhvort bæjarfulltrúi Sjálfstfl. eða í stjórn þess flokksfélags. A.m.k. varð það niðurstaðan. Því er spurt:
    Hvernig hafa þessir menn staðið sig gagnvart þessum kaupum? Hvað hefur Sigló hf., sem var kaupandi fyrirtækisins, greitt af kaupverði lagmetisiðjunnar Siglósíldar frá kaupdegi til dagsins í dag?
    Samkeppni er mjög hörð á meðal rækjuverksmiðja en þegar meira kapp en forsjá ræður þar ferð getur ekki annað en farið illa. Þegar verksmiðjur taka að sér að greiða olíu, vistir og veiðarfæri fyrir báta til að fá þá í viðskipti og greiða síðan 50% ofan á auglýst rækjuverð til að tryggja sér hráefni þarf ekki að undra að kostnaðarreikningar springi og ýmsir þjónustuaðilar og sveitarfélag fái ekki greidda sína reikninga.
    Það fyrirtæki sem áður var rekið á ríkisstyrkjum sem ríkisfyrirtæki var svo seinna sem Sigló hf. rekið á kostnað sveitarfélags og þjónustuaðila. Nú er fyrirtækið gjaldþrota. Gjaldþrotaupphæðin er tæplega 300 millj. kr., þar af um 140 millj. kr. veðskuldir. Þar er ríkið í 14. sæti veðkröfuhafa. Ríkið hefur haft þetta fyrirtæki í uppboðsmeðferð í á annað ár og aldrei gengið til ákveðinna aðgerða í þeim málum, en hrapað alltaf niður um veðsæti eftir því sem mér skilst. Tæplega 100 millj. kr. skulda eru í eigu þjónustuaðila og einkaaðila á Siglufirði og það er mjög stór biti fyrir ekki stærra bæjarfélag að bera.
    Þetta fyrirtæki var ekki fyrr lýst gjaldþrota en þau undur og stórmerki gerast að fyrri eigendur rísa upp úr öskunni, dusta af sér rykið og láta sem ekkert hafi í skorist. Skipt er um nafn og kennitölu, en annars er allt óbreytt.
    Þetta er ekki einsdæmi í íslensku efnahagslífi í dag að menn hlaupi frá sínum skuldum, stofni ný fyrirtæki og skilji ríki og bæ, lífeyrissjóði og þjónustuaðila eftir með tiltölulega eignalaus þrotabú sem greiðslu fyrir veitta vinnu og þjónustu. Þetta er því miður, eins og einn góður maður sagði á sínum tíma, löglegt en siðlaust. Því er spurt:
    ,,Hefur fjmrn. í hyggju að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aðilar að gjaldþroti reki fyrirtækið

áfram undir nýju merki og komist þannig hjá greiðslu allra skuldbindinga til stórskaða fyrir skuldareigendur?``
    Virðulegi forseti. Nú er ljóst að mikill áhugi er meðal heimamanna og það á mjög breiðum grundvelli að fá að yfirtaka þetta fyrirtæki til að skapa festu í atvinnulífi Siglufjarðar og til að tryggja áframhald vinnslunnar, ekki bara í sjö mánuði, eins og leigusamningur við þá gjaldþrotamenn segir til um, heldur um alla framtíð. Það er algjör óhæfa að skiptaráðandi skuli láta gjaldþrotamenn ganga fyrir um leigu á þessu fyrirtæki. Skiptaráðandi á að vera hagsmunaaðili skuldareigenda, en við þá virðist ekki hafa verið haft samráð á nokkurn hátt. Því er spurt:
    ,,Var haft samband við fjmrn. sem einn stærsta kröfuhafa í þrotabú Sigló hf. varðandi leigu á eignum þrotabúsins til Sigluness hf.?`` Og einnig: ,,Til hvaða ráðstafana hefur fjmrn. gripið til að gæta hagsmuna ríkisins í þessu tilviki?``
    Ég vil fara fram á, ef Sigló hf. hefur ekki staðið við kaupsamning, t.d. varðandi greiðslur á lagmetisiðju o.fl., að ríkið leysi fyrirtækið til sín og selji það hinu nýstofnaða fyrirtæki heimamanna, Sunnu hf.