Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. 31. gr. þingskapa hljóðar svo:
    ,,Vilji alþingismaður óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni eða einstakt atriði þess gerir hann það með fyrirspurn í sameinuðu þingi er afhent sé forseta. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði eða mál sem ráðherra ber ábyrgð á og sé við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli. Alþingismaður segir til um það hvort hann óskar skriflegs eða munnlegs svars. Stutt greinargerð má fylgja fyrirspurn.``
    4. liður þeirrar fyrirspurnar sem hér er til umræðu hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hefur fjármálaráðuneytið í hyggju að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aðilar að gjaldþroti reki fyrirtækið áfram undir nýju merki og komist þannig hjá greiðslu allra skuldbindinga til stórskaða fyrir skuldareigendur?``
    Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. heyrir sú ákvörðun, að veita tilteknum aðilum heimild til rekstrar fyrirtækisins undir nýju merki, ekki undir fjmrh. heldur undir skiptastjóra í þrotabúi. Í öðru lagi er hér um fullyrðingu að ræða sem ekki á heima í fyrirspurn þar sem fullyrt er að sú ákvörðun hafi orðið til stórskaða fyrir skuldareigendur. Þessi fyrirspurn er því rangt fram borin og hefði hæstv. forseti átt að vísa 4. lið þessarar fyrirspurnar frá.