Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þannig hagar til í þingsköpum varðandi fyrirspurnir að umræðutími er takmarkaður. Það er ekki ætlast til þess að þingmenn sem ekki eru fyrirspyrjendur taki þátt í umræðum nema þá til þess að gera örstutta athugasemd.
    Hæstv. fjmrh. leyfir sér hins vegar að notfæra sér aðstöðu sína þegar þingsköp eru með þessum hætti til þess að vega hér á grófan hátt að ákveðnum þingmönnum og fjarstöddum mönnum sem eru aðilar að fyrirtæki sem ríkið hefur átt viðskipti við og gengur jafnvel svo langt að kalla áhrifamenn í Framsfl. flokksgæðinga Sjálfstfl. Hér er um svo fádæma vinnubrögð að ræða af hálfu hæstv. fjmrh. að nota fyrirspurnatíma með þessum hætti að því verður að mótmæla mjög eindregið. Það er nauðsynlegt í framhaldi af þessu að taka þetta mál til ítarlegrar umræðu hér á hinu háa Alþingi áður en kemur til þinglausna. Hæstv. fjmrh. hefur varpað fram svo grófum athugasemdum og svo grófum ásökunum á forvera sína í embætti og embættismenn fjmrn. að það er útilokað annað en á hinu háa Alþingi fari fram mjög ítarleg umræða um þetta mál allt saman áður en þinglausnir verða í vor og það verði tekinn nægur tími til þeirrar umræðu.
    Það er óhjákvæmilegt annað en Ríkisendurskoðun verði nú beðin um að gera um þetta mál skýrslu hið snarasta og hún verði lögð fram hér á Alþingi í næstu viku og málið tekið til ítarlegrar umræðu. Jafnframt verður að mótmæla því að hæstv. fjmrh. notfærir sér þann aðstöðumun sem er í fyrirspurnatíma þar sem ráðherrar hafa verulegan rétt umfram almenna þm. til þess að koma með grófar ásakanir á forvera sína í stað þess að svara fyrirspurnum hispurslaust og í samræmi við efni sitt.
    Þetta er nauðsynlegt að komi hér fram þegar við þessa umræðu en ég vænti þess, frú forseti, að það verði gefinn nægur tími í næstu viku á fundum í sameinuðu þingi til þess að ræða þetta mál ofan í kjölinn og fá skýrslu Ríkisendurskoðunar um þetta mál frá upphafi er fyrirtækið var selt og þar til í dag. Ég fullyrði að ekkert er athugavert við sölu fyrirtækisins og ég fullyrði að frá þeim tíma að fyrirtækið var selt hafi fjmrn. gætt hagsmuna ríkissjóðs í hvívetna.