Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt að þetta dæmi um einkavæðingu Sjálfstfl. er viðkvæmt hjá formanni Sjálfstfl., Þorsteini Pálssyni. Ég fagna því að Ríkisendurskoðun verði fengin til að fletta ofan af flokkspólitískri spillingu Sjálfstfl. varðandi þetta mál. Ég fagna því ef formaður Sjálfstfl. vill beita sér fyrir því að á Alþingi verði ítarlega rætt um afskipti Sjálfstfl. af þessu máli. Það væri vissulega tilefni til þess að lýsa því rækilega hvernig flokkur, sem taldi sig vera að framkvæma eitthvað sem hét einkavæðing, notaði pólitíska aðstöðu sína til þess að hygla einstaklingum og gefa þeim eignir ríkisins. Ætlar sér svo nú að gefa það til kynna að það hafi í reynd átt að gefa þeim fyrirtækið í annað sinn. Ég vil því láta það koma alveg skýrt fram að ég tek eindregið undir það að veittur verði ítarlegur tími til þess að fara ofan í þessa sögu og að Ríkisendurskoðun verði fengin til þess að gefa ítarlega skýrslu um feril þessa máls, sérstaklega hvernig ráðamenn Sjálfstfl. hafa beitt valdi sínu til að greiða fyrir því að þeir sem fengu ríkisfyrirtæki gefins þurfi ekki að greiða neitt fyrir það. Það er tími til kominn að þjóðin fái að vita það hvernig þeir sem bjóða sig fram til þess að stjórna eignum þjóðarinnar nota það vald til þess að hygla flokkspólitískum gæðingum sínum eins og Sjálfstfl. hefur löngum beitt aðstöðu sinni í ríkiskerfinu og bankakerfinu til þess að byggja upp flokkspólitíska fyrirgreiðslu. Ferill Siglósíldar er mjög gott dæmi um það og við skulum vissulega gefa okkur tíma á Alþingi til þess að rekja hina spilltu sögu Sjálfstfl. í þessu máli.