Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil aðeins taka það fram að það er nauðsynlegt þegar sú umræða, sem hæstv. fjmrh. hefur nú fallist á að verði hér í næstu viku, fer fram að jafnhliða verði rætt um allar ákvarðanir hans um skuldbreytingar gagnvart einstökum aðilum og einstökum fyrirtækjum nákvæmlega í þeirri umræðu.
    Í annan stað vil ég óska eftir því að hæstv. dómsmrh. svari þeirri fyrirspurn hvort skiptaráðandi hafi nú eftir að þetta fyrirtæki varð gjaldþrota brotið gegn gildandi lögum um þær ákvarðanir sem hann tók eða hvort ákvarðanir hans hafi verið óeðlilegar með einhverjum öðrum hætti.
    Ég vil jafnframt óska eftir því að hæstv. dómsmrh. svari því hvort skiptaráðandinn hafi verið að taka ákvarðanir á flokkspólitískum grundvelli þegar niðurstöður voru fengnar af hans hálfu. Það er óhjákvæmilegt að fá það upplýst í þessari umræðu af hálfu hæstv. dómsmrh. hvort embættismenn hans hafi framið athafnir sem flokka megi undir flokkspólitískar ívilnanir eins og hæstv. fjmrh. og hv. fyrirspyrjandi hafa verið að gera skóna í umræðunni. Ég vænti þess að hæstv. dómsmrh. svari þessari fyrirspurn.