Sigló hf.
Föstudaginn 05. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt lesið úr þingsköpum og mjög eðlilegt að það sé þannig að hv. forseti telji tíma til kominn. Það er nefnilega þannig að hæstv. fjmrh. fór langt út fyrir það sem eðlilegt má teljast þegar hann svaraði þessari fsp. og notfærði sér það í þessari umræðu að hafa mun lengri tíma en aðrir þingmenn. --- Ég segi aðrir þingmenn þótt hæstv. ráðherra sé ekki þingmaður. Hann er þingmannsígildi þótt Reyknesingar hafi hafnað honum í síðustu kosningum. --- Þetta varð til þess, virðulegur forseti, að menn hlutu að koma hér upp og verja hendur sínar á þeim örskamma tíma sem þeir hafa til þess að koma með örstutta athugasemd. því hér var farið með dylgjur, eins og reyndar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda nú þegar hann leiðrétti sín ummæli og reyndi að draga í land og ég er þakklátur honum fyrir það að hafa séð að sér í þeim efnum.
    Það liggur fyrir í þessari umræðu að hæstv. ráðherra hefur boðist til þess að fara fram á það við Ríkisendurskoðun að það liggi fyrir skýrsla um þetta mál í næstu viku og hann sé tilbúinn til þess þá að taka þátt í umræðum í ótakmarkaðan tíma. Nú er það svo að jafnvel þótt hæstv. ráðherra sé mjög voldugur og stjórni ríkisstjórn þessa lands, með fullri virðingu fyrir hæstv. forsrh. sem er það að nafninu til, er það nú svo að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi Íslendinga. Þess vegna er það nauðsynlegt, virðulegur forseti, og þá kem ég að efni málsins sem ég ætla að spyrja virðulegan forseta um: Ætlar virðulegur forseti sem yfirmaður þessarar stofnunar og þar með æðsti yfirmaður Ríkisendurskoðunar að sjá til þess að í næstu viku verði farið að beiðni hæstv. fjmrh. um að skýrsla liggi fyrir hjá Ríkisendurskoðun og að tekinn verði sá tími til umræðna um þetta mál sem hæstv. fjmrh. hefur hafið hér með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að hér í dag? Þetta er fyrirspurn til hæstv. forseta og varðar þingsköp að sjálfsögðu.