Búminjasafn á Hvanneyri
Föstudaginn 05. maí 1989

     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 1016 er að finna nál. um till. til þál. um stofnun búminjasafns á Hvanneyri frá félmn. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið og sendi það til umsagnar. Svör bárust frá eftirtöldum: Búnaðarfélagi Íslands, Byggðasafni Akraness og nærsveita, Félagi íslenskra safnamanna, skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri og þjóðminjaverði. Umsögn Byggðasafns Akraness og nærsveita fylgdi ítarleg greinargerð dr. Bjarna Guðleifssonar um búminjasafn á Hvanneyri.
    Umsagnaraðilar taka vel undir þetta mál og hvetja til að stofnað verði safn á þeim grunni sem vísir er að á Hvanneyri.
    Þjóðminjavörður telur að heitið ,,búvélasafn`` nái betur yfir þann stofn muna sem fyrir er og að erfitt sé að koma upp yfirgripsmiklu og alhliða búminjasafni ,,þar sem allar eldri búminjar, áhöld, verkfæri og ílát fást ekki lengur að neinu marki``. ,,Mér þykir rétt``, segir þjóðminjavörður, ,,að mæla með fyrrgreindri þáltill., enda verði safnið einkum bundið við búvélar og hin stærri tæki frá vélaöld.`` Síðan telur hann upp ýmis atriði er málið varða, ekki síst að uppbygging slíks safns sé kostnaðarsöm, bæði varðandi stofnkostnað og rekstur. Telur hann að ekki ætti að fara lengra með málið nema tryggt sé að safninu verði búin viðunandi fjárhagsleg skilyrði.
    Félag íslenskra safnamanna ,,telur þó eðlilegt að slíkt safn falli undir það heildarskipulag safnamála sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til þjóðminjalaga sem nú liggur fyrir Alþingi``.
    Í svipaðan streng tekur forstöðumaður Byggðasafns Akraness og nærsveita um leið og hann fagnar tillögunni. ,,Sjálfgefið er að vísa þessu máli til væntanlegs þjóðminjaráðs eða þeirrar yfirstjórnar minjavörslunnar í landinu sem komið verður á fót verði umrætt frumvarp að lögum ... Á þessu stigi málsins sýnist því naumast þörf á frekari umræðu um þetta tiltekna mál. Mælt er sérstaklega með samþykkt þáltill. sem viljayfirlýsingar þingsins um að stofnað verði með formlegum hætti búminjasafn á Hvanneyri sem hluti af samræmdri heildarstefnu um uppbyggingu Þjóðminjasafns Íslands.``
    Skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri segir m.a. í umsögn sinni:
    ,,Þó skal á það bent til áréttingar að Búminjasafn á Hvanneyri hefði mikla þýðingu fyrir kennslu í véla- og verkfærafræði auk þess sem það hefur almennt gildi sem safn og fellur vel að starfsemi skólans og að starfsemi bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.``
    Nefndin minnir á að á yfirstandandi þingi kom fram frumvarp til laga um búminjasafn á Hvanneyri, en ekki eru líkur á að það nái fram að ganga. Hins vegar er líklegt að samþykkt verði ný þjóðminjalög með margvíslegum nýmælum, m.a. að því er varðar skiptingu landsins í minjasvæði og samræmda yfirstjórn minjavörslunnar í höndum þjóðminjaráðs.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið flutningsmanna tillögunnar og umsagnaraðila að rétt sé að ganga

formlega frá stofnun safns á þeim grunni sem vísir er að á Hvanneyri. Slíkt safn þarf að falla að heildarstefnu í safnamálum Vesturlands og á landinu öllu á grundvelli nýrra þjóðminjalaga. Því leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og væntanlegs þjóðminjaráðs.``
    Að þessu áliti standa allir fulltrúar í félmn.