Búminjasafn á Hvanneyri
Föstudaginn 05. maí 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka félmn. fyrir þessa afgreiðslu. Þó að ég sé vissulega ekki fyllilega sammála henni geri ég mér grein fyrir því að nefndin var í nokkuð erfiðri aðstöðu þannig að við betri eða meiri árangri var e.t.v. ekki að búast. Ég ítreka hins vegar við ríkisstjórnina að hún fari að vilja nefndarinnar, sem er ótvíræður, um að slíku safni verði komið á fót.
    Um það sem hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson sagði, þá er búið að samþykkja á þinginu þjóðminjalög. Þar inni er tekið á þessum safnamálum. Þar af leiðandi þarf ekki að samþykkja sérstakt frv. fyrir búminjasafn á Hvanneyri. Það eina sem þarf er viljayfirlýsing þingsins og ekkert annað. Það frv. sem hins vegar var flutt í kapphlaupi við þáltill. okkar var ekkert annað en frumhlaup.