Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er ekki undarlegt þó að menn vilji ræða þessi mál, ástandið í skólunum, hér á hv. Alþingi. Satt að segja kemur það mér ekki á óvart þó að menn skuli kveðja til slíkrar umræðu og þó fyrr hefði verið. Staðreyndin er sú að hér er um að ræða mjög alvarlega deilu sem eðlilegt er að alþingismenn hafi áhyggjur af og ræði sín á milli.
    Ég vil fyrst víkja að spurningum hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar. Hann spurði: Hvaða leiðir koma til greina þegar verkfallið leysist? Og svarið er ósköp einfaldlega þetta: Það verður farið í viðræður við skólastjóra, kennara og nemendur framhaldsskólanna um skólalokin í vor þegar verkfallið leysist. Það verður leitað allra leiða til þess að ljúka skólanum í vor með eðlilegum hætti. Það væri bæði óskynsamlegt og rangt af menntmrh. við núverandi aðstæður að skrifa það upp af sinni hálfu hvernig þetta ætti nákvæmlega að gerast. Þetta er mismunandi eftir skólunum. Skólarnir eða nemendur þeirra hafa í raun og veru tafist mismunandi mikið þannig að það væri beinlínis fráleitt að menntmrn. færi á þessu stigi málsins að gefa út eina allsherjarformúlu um það hvernig á þessum málum ætti að taka. En ég endurtek það sem ég hef sagt opinberlega áður. Við munum auðvitað þegar deilan leysist fara í viðræður við kennara, skólameistara og útskriftarnemendur framhaldsskólanna sérstaklega um lok skólaársins 1988--1989. Þetta á einnig við varðandi tilflutning á milli bekkja.
    Hvað hefur verið gert til þess að stuðla að lausn þessa máls af hálfu menntmrn.? Það er auðvitað svo fjöldamargt. Við höfum aftur og aftur tekið á þessum málum á þeim vettvangi þar sem við eigum að taka málið upp. Ég t.d. í ríkisstjórninni hvað eftir annað. Við höfum farið yfir málin mjög rækilega þar og reyndar víðar. Það liggur hins vegar í hlutarins eðli, og það skilja allir sem þekkja til samsteypuríkisstjórna og samstarfs í ríkisstjórnum, að sá þrýstingur sem settur er á mál af hálfu einstakra ráðherra verður ekki rakinn t.d. við aðstæður eins og þær sem við upplifum nú.
    Varðandi hvort það er samstaða milli mín og hæstv. fjmrh. um þessi mál, þá er því til að svara: Ég hef mínar skyldur númer eitt við mennta- og skólakerfið í landinu og ég held þeim rækilega til haga. (Forseti hringir.)
    Þetta er auðvitað alveg útilokað, hæstv. forseti. Hér hefur ráðherra 5 mínútur til að svara eins og í venjulegum fyrirspurnatíma. ( Forseti: Samkvæmt 32. gr. hefur ráðherra ekki tíma eins og í venjulegum fyrirspurnatíma.) Mér þykir það afar leitt að fá ekki að ræða smástund lengur við suma þingmenn Sjálfstfl. sem eru að garga hérna fram í. Ég gæti talað mikið lengur. ( Forseti: Forseti vill benda á að forseti hefur ekki ákveðið þetta. Þetta er samkvæmt þingsköpum og honum ber að fara eftir þeim eins og kostur er og var þess vegna að gera hæstv. ráðherra viðvart um að nú væri tímanum lokið sem honum er ætlað samkvæmt þingsköpum.) Já, já, stormurinn þýtur, en stundin er

ekki alveg komin kannski.
    Varðandi það sem hv. 6. þm. Vesturl. nefndi um að þessi deila væri algerlega á ábyrgð stjórnvalda. Auðvitað er ábyrgð stjórnvalda mikil, þar á meðal menntmrh., en deilan er ekki eingöngu á ábyrgð stjórnvalda. Hún er einnig á ábyrgð hins samningsaðilans í þessari deilu. Úrslitaatriðið í deilunni er það að menn taki höndum saman og reyni að sjá fram úr þessum verkum.
    Núna eru að hefjast og standa yfir úrslitatilraunir hjá sáttasemjara ríkisins til þess að komast að niðurstöðu í þessari deilu. Það eru að mínu mati lokatilraunir og úrslitatilraunir. Ég tel að í rauninni sé þegar komið fram yfir elleftu stundu í þessu efni. Þær viðræður sem nú standa yfir byggjast m.a. á því að tekið verði tillit til samningsins sem gerður var við félag háskólamanna. Þær byggjast einnig á því að það verði tekið á þeim málum sem snúa að þeim framtíðarverkefnum sem BHMR hefur lagt áherslu á. Allt verður þetta að koma inn í myndina miðað við núverandi aðstæður.
    Við munum taka á þessu máli í menntmrn. þegar deilan leysist, ég segi þegar, ekki ef heldur þegar, í samráði við alla hlutaðeigandi aðila, skólastjóra, kennara og framhaldsskólanema. Mér þykir leitt að geta ekki farið ítarlegar yfir þetta mál, en vil aðeins segja að lokum þetta:
    Í kjaramálaumræðu af þessu tagi vilja menn gjarnan leggja á það megináherslu að taka verði tillit til hinna efnahagslegu stærða umhverfisins. Staðreyndin er sú að efnahagsstefnan skiptir miklu máli. En við lokauppgjör máls af þessu tagi verða menn að horfa á menntastefnuna, menntamálin og vega þessa hluti saman en ekki horfa einsýnum augum aðeins á hið efnahagslega umhverfi.