Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég vil í tilefni af þessum umræðum láta koma fram í fyrsta lagi af minni hálfu varðandi kennara:
    Ég treysti núv. menntmrh. og núv. ríkisstjórn ekki til þess að láta fara fram endurmat á störfum kennara. ,,Mér finnst hafa komið fram í máli hæstv. ráðherra og sérstaklega hæstv. fjmrh. þvílík vanþekking á störfum kennara að ég tel að það sé með öllu fráleitt að ætla þessum aðilum að hafa með það mál að gera.`` Þessi ummæli eru, hæstv. forseti, orðrétt höfð eftir núv. hæstv. menntmrh. þegar hann var í stjórnarandstöðu. Hann lét þau falla hinn 15. okt. 1984 í umræðum utan dagskrár og það er enginn vafi á því að þessi ummæli hæstv. menntmrh. og önnur þvílík frá munni ráðherra og æðstu manna Alþb. hafa valdið því að háskólamenntaðir, sérstaklega þó kennarar, ætluðu að þeir ættu hauk í horni þar sem núv. menntmrh. og núv. fjmrh. eru og það er m.a. skýringin á því hvernig aðdragandi að verkfalli háskólamenntaðra manna var, sú ákvörðun og sú niðurstaða almennra kosninga að samþykkja verkfallsboðunina. Það er svo deginum ljósara að í stað þess trausts sem ýmsir í röðum kennara báru til þessara hæstv. ráðherra áður hefur nú orðið alger trúnaðarbrestur og það er m.a. skýringin á þeim miklu sárindum og á þeirri miklu hörku sem komið hefur í þessa deilu.
    Ég fagna því, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að hann hefði nú loksins komið fram með ýmsar hugmyndir sem mættu verða til að leysa þessa deilu en vil um leið inna hæstv. forsrh. eftir því hvort hann geti gefið skýringu á þeim ummælum hæstv. menntmrh. áðan að hann sæti í samsteypustjórn og þó svo að hann hefði tekið málefni kennara upp í ríkisstjórninni hefði það ekki borið viðunandi árangur. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. hvort komið hafi upp ágreiningur milli hæstv. menntmrh. og annarra í ríkisstjórninni af þessum sökum.
    Tíma mínum er lokið, en ástæða hefði verið að fara inn á aðra þætti. En ég vil vænta þess að annaðhvort hæstv. menntmrh. eða þá forsrh. reyni að skýra fyrir þingheimi og þjóðinni allri hvað fólst í þessari skírskotun menntmrh. til samsteypustjórnar í þessu samhengi.