Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu. Ég verð að segja að mér fannst hann ótrúlega hógvær í orðum sínum áðan. Með réttu ættum við að vera að ræða vantraust á þá ríkisstjórn sem situr nú og hefur haldið svo á málum að allt er komið í óleysanlegan hnút.
    Hvað í ósköpunum eru ráðamenn að hugsa? Hvernig í ósköpunum geta þeir yfirleitt gert nokkurn skapaðan hlut annan en að reyna að leysa þetta mál, þennan alvarlega vanda? Þeir bera þunga ábyrgð á því hvernig komið er. Þeir bera ábyrgð á vanefndum loforða um kjarabætur. Þeir bera ábyrgð á því að ekki var hafist handa um viðræður fyrir löngu þar sem löngu var ljóst í hvað stefndi. Og þeir bera mesta ábyrgð á þeim harða og vandleysta hnút sem málið er nú komið í. Vinnubrögðin hafa verið með hreinum endemum. Þau félög sem um ræðir hafa verið í verkfalli í rúmar fjórar vikur --- en vita menn hvað viðræðustundirnar eru orðnar margar? Þær eru orðnar tíu, þær eru orðnar tíu talsins viðræðustundirnar í Karphúsinu svokallaða allan þennan tíma sem fólkið hefur verið í verkfalli. Hvað ætla ráðamenn sér með þessu háttalagi? Er verið að reyna að brjóta þetta fólk niður andlega? Halda menn að þetta fólk sé í verkfalli að gamni sínu eða það líti á kjarabaráttu sem einhvers konar íþróttakeppni? Og gera menn sér grein fyrir afleiðingunum? Sé ætlunin að hrekja sem flesta frá ríkisstofnunum, ekki aðeins vegna bágra kjara heldur einnig og e.t.v. ekki síður vegna óvirðingar á störfum þeirra og lítilsvirðingar gagnvart þeim í kjarabaráttu, þá er allt útlit fyrir að það markmið náist. Öll þjóðin mun súpa seyðið af þessari framkomu, þessum atburðum, sem eru algjörlega á ábyrgð ríkisvaldsins.
    Ástandið er orðið gríðarlega alvarlegt á öllum þeim sviðum sem verkfallið tekur til og nú er farið að tala um að setja lög. Þær fréttir hafa borist að verið sé að íhuga og ræða í fullri alvöru að setja lög á þetta fólk og maður hlýtur að spyrja með tilliti til gangs mála hvort það hafi allan tímann verið ætlunin. Var það allan tímann ætlunin að beita öllum ráðum til að snúa almenningsálitinu gegn þessum hópi fólks sem heyr nú harða baráttu fyrir bættum kjörum? Var ætlunin að sverfa svo að því að það hafi ekki kraft né samúð annarra til þess að berjast gegn ofríki viðsemjanda síns?
    Sú napra staðreynd hefur komið berlega í ljós að verkfallsvopnið, þetta dýrmæta vopn launafólksins, hefur ekki sama vægi í höndum ríkisstarfsmanna eins og launafólks á almennum vinnumarkaði og ástæðan er sú að þegar launafólk á almennum vinnumarkaði beitir þessari nauðvörn finnur viðsemjandi þess til. Þá eru það beinir hagsmunir hans sem eru í húfi, en þegar ríkisstarfsmenn gera hið sama þá er það þriðji aðili sem fyrst og fremst er þolandi verkfallsins og þá skiptir ábyrgðartilfinning viðsemjanda gagnvart þriðja aðila öllu máli. Ég lýsi hér með eftir ábyrgðartilfinningu hæstv. ráðherra í þessu efni, ábyrgðartilfinningu gagnvart öllum sem þurfa að líða vegna þessa og eiga eftir að gera það um ókomin ár

vegna þeirra afleiðinga sem þessir atburðir hafa í þjóðfélaginu í framtíðinni. Þessa alvarlegu kreppu verður að leysa og ég lýsi þeirri skoðun minni að þinglok geta ekki orðið og mega ekki verða fyrr en sú lausn er fundin.
    Ég bið hæstv. forseta afsökunar og þakka honum fyrir biðlundina. Það er auðvitað afleitt að þingmönnum og hæstv. ráðherrum gefist ekki tími til að ræða þetta ítarlega vegna þess ramma sem þingsköp setja þessari umræðu og ég vildi nú lýsa fúsleika mínum og vænti að ég mæli þar fyrir munn annarra þingmanna, a.m.k. margra annarra þingmanna, að þessi umræða megi nú fara fram samkvæmt 2. málsl. 32 gr. þingskapa.