Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Vandi nemenda í framhaldsskólum stafar ekki af því að hæstv. menntmrh. eða hæstv. fjmrh. hafi tekið þá ákvörðun að loka skólum landsins. Vandinn stafar af því að skólastarf hefur lagst niður vegna þess að kennarar hafa tekið þá ákvörðun að fara í verkfall og það er þeim auðvitað frjálst. Sumir framhaldsskólanemendur eru nú að upplifa það að þetta er í þriðja skiptið sem námi þeirra er stefnt í hættu á sama árstíma af sömu orsökum. Auðvitað þekkist það að menn geta valið verkfallsdaga hvenær svo sem þeir vilja allt árið, en þetta er í þriðja sinn sem tekin er ákvörðun um það hjá starfsmönnum framhaldsskóla að fara í verkfall undir það að nemendur eru að ljúka sínu námstímabili. ( KH: Hvenær var samningsbanni aflétt?) Einu sinni er út af fyrir sig ekkert skrýtið, tvisvar getur verið tilviljun, en þrisvar í röð er ekki tilviljun.
    Það hefur verið sagt hér að það hafi ekki verið vilji til samkomulags af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki rétt vegna þess að fjmrh. hefur ítrekað boðist til þess að ganga til samninga í þessari vinnudeilu á sömu nótum og 80% launþega í þessu landi hafa þegar fellt sig við. Það tel ég ekki lýsa því að það sé ekki vilji til samkomulags hjá hæstv. ráðherra.
    En kjarni málsins er þessi: Telja þeir sem hér koma og gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir afskipti hans af málinu rétt að leysa málið á þann þátt að háskólamenntaðir menn í þjónustu ríkisins fái meiri launahækkanir en láglaunafólkið í BSRB og ASÍ hefur fengið?
    Þessari spurningu skulu menn svara umbúðalaust. Telja þeir rétt að leysa þessa deilu með meiri hækkunum til háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins en láglaunafólkið hefur fengið? Það er kjarni málsins. Og telur Kvennalistinn, en forsvarsmaður hans flutti hér áðan ræðu um nauðsyn þess að auka samstöðu launafólks, að það væri líklegt til að auka samstöðu launafólks í þessu landi ef háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins fengju nú tvöfalda eða þrefalda hækkun á við það sem láglaunafólkið hefur fengið?
    Ég tel að konurnar í frystihúsunum vestur á fjörðum teldu það lærdómsríka niðurstöðu ef það væri vilji alþingismanna Kvennalistans hér á hinu háa Alþingi.