Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi þessarar umræðu að ég ætlaði ekki að gera þessa launadeilu sjálfa sérstaklega að umtalsefni. Ég ætla að standa við það. Ástæðan fyrir því að ég hóf þessa umræðu er sú mikla óvissa sem ríkir nú hjá þúsundum nemenda um land allt varðandi skólalok og varðandi möguleika á að flytjast á milli bekkja. Það er komið fram yfir elleftu stundu eins og hæstv. menntmrh. sagði. Þess vegna olli það mér miklum vonbrigðum að hann gæti ekki svarað því nú, þegar komið er fram yfir elleftu stundu, hvernig gripið yrði á þeim málum, þ.e. hvaða leiðir kæmu til greina varðandi útskrift stúdenta og annarra lokaprófsnemenda og hvaða ákvarðanir menntmrh. hygðist taka í þeim efnum.
    Ég vænti þess vissulega að þessi deila leysist sem allra fyrst. Við getum hins vegar ekkert gefið okkur í þeim efnum. Það sýnir reynslan okkur. Og þrátt fyrir það lokaátak sem nú er að byrja er ljóst að það mun taka einhverja daga. Þess vegna veldur það vonbrigðum að hæstv. ráðherra skuli ekki geta svarað því hér og nú, ekki einu sinni hvaða leiðir koma til greina, hvað þá að hann hafi hugleitt hvaða leiðum hann vill beita sér fyrir í þessu efni. Það kann nefnilega að vera of seint, hæstv. ráðherra, að leita allra leiða þegar verkfallið leysist. Það kann að vera að það þurfi að taka ákvarðanir fyrr vegna þess að verkfallið dragist á langinn og þess vegna er afar slæmt að hæstv. ráðherra skuli ekki getað svarað því hér og nú hvaða leiðir komi til greina og hvaða leiðir hann vill fara.
    Mér er t.d. kunnugt um það af viðtölum við fulltrúa nemenda í þremur framhaldsskólum, þ.e. Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum við Sund og Verslunarskóla Íslands, að þessir nemendur hafa lagt fyrir menntmrh. sínar hugmyndir um hvernig þeir vilji að skólalok fari fram sem miðast við að hætt verði í síðasta lagi 1. júní en nemendur haldi engu að síður sínum réttindum, þ.e. að þeir geti útskrifast með venjulegum hætti þrátt fyrir verkfall. Þess vegna hefði mér þótt rétt að hæstv. ráðherra gæfi okkur einhverjar yfirlýsingar í þessu efni og ekki síst öllum þeim fjölda, þeim þúsundum nemenda sem núna bíða í óþolandi óvissu eftir úrslitum þessara mála.