Ástandið í framhaldsskólunum
Föstudaginn 05. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef mál mitt með því að taka undir allt það sem hér hefur verið sagt um skaðsemi þessa verkfalls fyrir skólastarfið í landinu. Það verður ekki ofsagt neitt í þeim efnum. Sömuleiðis má bæta við að verkfall annarra hópa innan BHMR veldur þegar mjög miklum vandræðum bæði í heilbrigðiskerfinu og atvinnumálum. Ég verð hins vegar að vekja athygli á því, sem reyndar kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni áðan, að ríkisstjórnin setti ákveðin markmið í kjaramálum og launamálum og það hefur tekist að halda kjarasamningum innan þess ramma, a.m.k. nokkurn veginn, í samningum við u.þ.b. 80% af launafólki. Ég vara við því að samið verði við einn hóp langt umfram það sem þar var gert og ég er sannfærður um að það mun hafa þau áhrif hér að hvorki sá hópur né aðrir bera neitt frá því borði. Ég er viss um að það mun leiða til kollsteypu í íslensku efnahagslífi. Ég legg því áherslu á að á þessum erfiðu tímum verða menn að halda kröfum sínum niðri þótt rétt kunni að vera, og ég er reyndar þeirrar skoðunar, að háskólamenntaðir menn hafi dregist aftur úr hér á undanförnum árum. Það verður þá að leiðrétta það á lengri tíma en hér er gefinn.
    Ég vil taka það fram, sem hér hefur reyndar komið fram sem svar við fsp. hv. 2. þm. Norðurl. e., að málið hefur hvað eftir annað verið rætt í ríkisstjórninni og menntmrh. gert grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem reyndar fyrir löngu er upp komin og aðrir ráðherrar fyrir sínum sviðum. Það er fullkomin samstaða í ríkisstjórninni um meðferðina á þessu máli. En vegna þess sem fram kom áðan hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, að verið væri að ræða um lög í þessari deilu, verð ég að leiðrétta það. Það er alls ekki í ríkisstjórninni verið að ræða um að setja lög á þetta verkfall. Það er misskilningur og verður að leiðréttast.