Dagvistarmál fatlaðra barna
Föstudaginn 05. maí 1989

     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Frá félmn. liggur fyrir nál. á þskj. 1017 um till. til þál. um dagvistarmál fatlaðra barna:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana til umsagnar. Svör bárust frá eftirtöldum: Félagi þroskaþjálfa, Fóstrufélagi Íslands, svæðisstjórnum málefna fatlaðra á Austurlandi, Reykjanessvæði og Vestfjörðum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þessir aðilar lýsa sig samþykka meginefni tillögunnar og að hún nái fram að ganga. Svæðisstjórn málefna fatlaðra á Reykjanesi sendir með umsögninni ítarlega greinargerð frá starfsmönnum sínum.
    Sú stefna, sem vísað er til í seinni hluta tillögunnar, að tengja skuli sérdeildir dagvistarstofnana svo sem unnt er við almennar deildir þeirra, er nú almennt viðurkennd. Hins vegar er athugunarefni hvaða úrbóta er þörf til að gera dvöl og þjálfun fatlaðra barna á dagvistarheimilum mögulega og árangursríka. Í mótun eru tillögur um forskólastig á vegum menntamálaráðuneytisins og er eðlilegt að fjallað sé um málefni fatlaðra í því samhengi. Þá er stefnt að því að lögfesta breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem m.a. taka til málefna fatlaðra.
    Með vísan til þessa mælir nefndin með því að könnun fari fram á þörfum fatlaðra barna fyrir dagvistun og hvaða úrbóta er þörf á því sviði. Nefndin flytur breytingartillögu við málið á sérstöku þingskjali og mælir með því að tillagan verði samþykkt þannig.``
    Þetta er gert á Alþingi 3. maí sl. og undirritað af öllum fulltrúum í félmn.
    Brtt. sem vísað er til er á þskj. 1018 og er svohljóðandi:
    ,,Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera könnun á þörfum fatlaðra barna fyrir dagvistun og hvaða úrbóta sé þörf á því sviði.
    Við þá athugun verði höfð hliðsjón af stefnumótun um forskólastig og að fötluð börn fái sérhæfða þjálfun sem mest í tengslum við almennar deildir dagvistarstofnana.``