Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. atvmn. um till. til þál. um bætta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar. Flm. þessarar þáltill. er einn virðulegur þingmaður, Stefán Guðmundsson, en samhljóða till. var lögð fram á 110. löggjafarþingi, en kom þá ekki til umræðu.
    Atvmn. hefur fjallað talsvert um þessa till. og í nál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og mælir með því að hún verði samþykkt með breytingu sem flutt er á sérstöku þingskjali.
    Nefndin væntir þess að eftirtalin atriði, sem nefnd eru í upphaflegri tillögugrein, verði höfð í huga við framkvæmd þessarar þingsályktunar:
    1. Ríkisstjórnin reyni að tryggja að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppi á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. hvað snertir meðferð tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu.
    2. Tilboð verði metin á viðskiptalegum grundvelli áður en lánveitingar eru ákveðnar.
    3. Settar verði staðlaðar reglur um útboð, veðskilmála og tilboð í skipaiðnaðarverkefni.
    4. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bankar veiti sambærilegar ábyrgðir vegna skipaiðnaðarverkefna innan lands og veittar eru þegar verkefni eru unnin erlendis.
    Nefndin telur æskilegt að ríkisstjórnin skili skýrslu um framgang þessarar þáltill. á haustþingi 1989.
    Tillgr. sem nefndin leggur til að verði samþykkt kemur óbreytt úr till. eins og hún var, en hluti tillgr. er felldur inn í nál. atvmn. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita allra leiða til að efla og bæta samkeppnisstöðu innlends skipaiðnaðar til að sporna við því að verkefni fari úr landi.``
    Ég vil láta þess getið að ég hef rætt við iðnrh. um þessa till. og rauða þráðinn í henni og hann fellir sig vel við það að taka þetta verkefni að sér.