Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka iðnrh. hans ágætu orð hér á undan. Þegar nefndin fjallaði um þetta mál, þá var henni boðið til fundar á Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar í Garðabæ. Því miður gátu fáir nefndarmanna sinnt þessu boði, en þar komu fram upplýsingar sem voru svo sláandi að ég hygg að þeir nefndarmenn sem þar voru hafi farið næsta undrandi af þeim fundi þegar þeir gerðu sér grein fyrir því hver staða íslensks skipaiðnaðar er yfirleitt gagnvart samkeppni við erlendan skipaiðnað.
    Ég skrifaði hjá mér nokkur atriði sem komu fram á þessum fundi, en þar voru forsvarsmenn íslensks skipaiðnaðar sem nú horfa upp á hrun í þessari iðngrein, og þar var sérstaklega nefnt að inn í þesa athugun --- og ég vildi láta það koma skýrt fram --- þyrfti að koma einhvers konar stuðningur við þann iðnað sem smíðar vélar og tæki fyrir íslensk skip. Mig langar, með leyfi forseta, að fá að lesa hér upp úr bréfi sem okkur var afhent á Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar við þetta tækifæri sem lýsir stöðunni betur en flest annað það sem ég hef heyrt um ástandið í þessum iðnaði sem hefur átt mjög undir högg að sækja. Margar skipasmíðastöðvar hafa verið reknar með stórfelldu tapi og hafa orðið að loka og eru nokkuð nýleg dæmi um það.
    Í þessu bréfi sem við fengum í hendur er á það minnt að Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar er stofnað 1946. Þar hafa dugandi menn verið við stjórnvöl. Þeir hafa náð mjög verulegum árangri, t.d. í smíði á skipavindum og togvindum og þeir hafa framleitt í yfir 440 fiskiskip togvindur sem þykja mikil gæðavara. Síðan segja þeir, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur því miður dregið úr þessari framleiðslu. Ekki hefur dugað að bjóða góða vöru á hagstæðu verði því að erlendir aðilar hafa jafnan boðið hagstæðari lán og lækkað sín verð niður fyrir okkar. Þetta hefur keyrt um þverbak á tveimur síðustu árum þegar hlutverk okkar á þessum markaði hefur helst verið að halda erlendum verðum niðri sem er gott svo langt sem það nær en við lifum ekki á því.
    Nú er svo komið að fyrirtækið er svo til verkefnalaust. Ekki hefur fengist marktækur samningur á þessu ári. Á sl. sex mánuðum höfum við orðið að fækka fólki um átta og í byrjun janúar var hætt að vinna yfirvinnu. Ef ekki rætist úr fljótlega verðum við enn að fækka fólki eða jafnvel loka fyrirtækinu og þá má búast við verulegum verðhækkunum á innfluttum vindum í kjölfarið. Til þess að árétta okkar mál getum við nefnt eftirfarandi dæmi.`` --- Og nú vil ég nefna það að á þessum fundi kom fram gífurleg gagnrýni á bankakerfið og Fiskveiðasjóð, einkum og sér í lagi á Fiskveiðasjóð, sem forstöðumenn þessa fyrirtækis töldu að svöruðu ekki erindum. Ef þeir svöruðu, þá svöruðu þeir seint og kæmu lítið til móts við þessa iðngrein. En hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að árétta okkar mál getum við nefnt eftirfarandi dæmi:
     1. Þrymur. Við vorum með 1200 þús. kr. lægra

tilboð en erlendur aðili sem lækkaði sitt tilboð, og gott betur, um 650 þús. Fengum verkefnið eftir að kaupandi gaf okkur kost á að lækka okkur líka.
     2. Gjafar VE. Við vorum með svo til sama verð og erlendur aðili sem lækkaði sig um 30%.
     3. Júlíus Geirmundsson. Við vorum með 8 millj. kr. lægra tilboð en erlendur aðili sem lækkaði sig um þessa upphæð.``
    Ég vil skjóta því inn í að það virðist svo sem erlendir aðilar hafi kost á því að lækka tilboð sín eftir að búið er að opna tilboð í verkefnin.
    ,,4. Röst. Skrifuðum undir samning vegna nýrra vinda fyrir ms. Röst sl. sumar. Rifta varð samningnum vegna synjunar frá Fiskveiðasjóði. Kaupandi var þó svo til skuldlaus við sjóðinn og hafði áður fengið synjun fyrir nýsmíði.
     5. Gissur hvíti. Gerður var samningur við Slippstöðina um smíði á vindum í þetta skip. Samningurinn gekk til baka vegna synjunar Fiskveiðasjóðs.
     6. Geisli. Okkur tókst að selja vindur í þetta skip í febrúar í fyrra. Síðan hafa lánastofnanir með Fiskveiðasjóð í broddi fylkingar dregið kaupandann á asnaeyrunum. Síðasta fréttin er synjun frá Byggðasjóði.
     7. Nýsmíði fyrir Njörð hf. hjá skipasmíðastöð Marselíusar, Ísafirði. Við vorum með svipað verð og erlendur aðili sem lækkaði sig um eina milljón.
     8. Gideon VE. Skrifuðum undir samning vegna nýrra vinda í þetta skip í desember sl. Fiskveiðasjóður hefur enn ekki tekið málið fyrir. Það yrði okkur verulegt áfall ef þessum samningi yrði rift.``
    Þetta eru dæmin sem við fengum í hendur um það hvernig búið er að íslenskum iðnfyrirtækjum í þessari grein. Ég hvet mjög eindregið til þess að þetta mál verði tekið föstum tökum þannig að íslensk fyrirtæki á þessum vettvangi, á þessu sviði búi við sambærileg kjör og þau erlendu sem eru í samkeppni við þau innlendu. Það nær auðvitað engri átt ef það gerist að erlend fyrirtæki geta komið með ný tilboð eftir að útboð hafa verið opnuð. Þá er eitthvað verulega mikið í ólagi sem þarf að breyta.
    Síðan er það alveg ljóst að þegar innlend fyrirtæki sækja um fjármagnsfyrirgreiðslu hjá peningastofnunum hér á landi til þess að geta
staðið undir þeim viðgerðum sem þau taka að sér, þá eiga þau miklu óhægara um vik heldur en þegar íslenskir aðilar leita með verkefni af þessu tagi til útlanda og fá bankaábyrgðir og bankafyrirgreiðslu nánast samdægurs.
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leggja áherslu á þessi atriði vegna þessarar till. sem mjög er tímabær og þarf að sinna núna á næstu mánuðum og ég endurtek bæði þakkir mínar til flutningsmanns till. og fyrir svör iðnrh.