Manneldis-og neyslustefna
Laugardaginn 06. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd heilbr.- og trmrh. mæli ég fyrir þáltill. á þskj. 757 um manneldis- og neyslustefnu.
    Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar og samstarfsflokkanna og í fyrri ríkisstjórn var ákveðið að vinna að mótun manneldis- og neyslustefnu fyrir íslensku þjóðina. Í samráði við það lagði heilbr.- og trmrh. fram í janúar 1988 í ríkisstjórninni tillögu um mótun slíkrar stefnu og skipun nefndar og starfshóps í því skyni.
    Ákveðið var að fimm ráðuneyti yrðu aðilar að málinu, þ.e. heilbr.- og trmrn., landbrn., sjútvrn., viðskrn. og iðnrn. Auk þess var gert ráð fyrir að þeir sem manneldisráð skipa tækju þátt í starfinu.
    Í maí 1988 var skipaður samráðshópur til að vinna að þessari stefnumótun. Í samráðshópnum eru eftirtaldir aðilar:
    Frá manneldisráði: Snorri Páll Snorrason yfirlæknir, Brynhildur Briem næringarfræðingur, Elísabet Vernharðsdóttir næringarfræðingur, dr. Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur og Hrafn Tulinius, prófessor í heilbrigðisfræði. Fulltrúar ráðuneytanna í samstarfshópnum eru: Frá iðnrn. Kristinn Björnsson framkvæmdastjóri, frá landbrn. dr. Stefán Aðalsteinsson búfjárfræðingur, frá sjútvrn. Kristinn Magnússon deildarstjóri, frá viðskrn. Jón Ögmundur Þormóðsson skrifstofustjóri og frá heilbr.- og trmrn. Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri og er hann jafnframt formaður samráðshópsins.
    Úr þessun hópi var síðan skipaður framkvæmdahópur þriggja fulltrúa og skipa hann þau Brynhildur Briem, Stefán Aðalsteinsson og Páll Sigurðsson.
    Verkefnisstjóri var ráðin Unnur Stefánsdóttir og hefur hún verið ritari beggja vinnuhópanna.
    Þau verkefni sem samráðshópurinn fékk til stefnumörkunar eru eftirfarandi:
    Að tryggja að íslensk matvælaframleiðsla verði í samræmi við neysluþarfir þjóðarinnar.
    Að manneldismarkmið manneldisráðs um hollustu fæðunnar verði lögð til grundvallar við stefnumótun.
    Að leiðbeina fólki og fræða það um hollt mataræði, meðferð matvæla og matreiðslu.
    Að gangast fyrir neyslukönnun til að öðlast yfirsýn yfir neysluvenjur þjóðarinnar.
    Ákveðið var að verkefnið skiptist í eftirfarandi verkþætti og var unnið að málinu í þeirri röð sem ég skal nú tilgreina:
    1. Að undirbúa þáltill. um neyslustefnu íslensku þjóðarinnar.
    2. Gera neyslukönnun.
    3. Gera áætlun um aðlögun neyslunnar að markaðri neyslustefnu.
    4. Gera áætlun um eftirlit með framkvæmd neyslustefnu og mat á árangri.
    Tveir fyrstu þættir framkvæmdaáætlunarinnar eru komnir á rekspöl. Þáltill. liggur nú fyrir ásamt grg. og mæli ég fyrir henni. Fjármagn hefur fengist á þessu ári til að hefja neyslukönnun. Hefur dr. Laufey

Steingrímsdóttir næringarfræðingur verið ráðin til að annast og bera ábyrgð á könnuninni sem fer fram á öllu landinu og verður úrtakið 1800 manns. Neyslukönnunin er gerð öðru fremur í þeim tilgangi að hægt sé að móta íslenska manneldisstefnu. Þekking á íslensku mataræði, einkennum þess, kostum og göllum er ein helsta forsenda raunhæfrar stefnumótunar í manneldismálum. Neyslukönnuninni er því ætlað að veita upplýsingar um ástand mála og mynda þann grunn sem manneldisstefnan byggir á. Þær upplýsingar sem neyslukönnuninni er ætlað að afla eru þessar:
    1. Hlutur einstakra matvara í fæðu Íslendinga.
    2. Hlutur fastra máltíða og aukamáltíða eða millimáltíða í fæðunni.
    3. Hlutur neyslu á heimili og utan heimilis.
    4. Áhrif einstakra þátta á neyslu og neysluvenjur og eru þar ýmsir liðir tilteknir, þ.e. áhrif: 1) menntunar, 2) tekna, 3) starfsstéttar, 4) fjölskylduhátta, 5) búsetu, 6) aldurs, 7) kyns, 8) hreyfingar, 9) þyngdar og 10) reykinga.
    Þá er í fimmta lagi ætlað að athuga meðalneyslu einstakra næringarefna.
    Og í sjötta lagi dreifingu neyslu með tilliti til einstakra næringarefna.
    Framkvæmd þessarar könnunar verður þannig: Undirbúningsvinna stendur nú yfir. Ráðgert er að forkönnun fari fram haustið 1989 og aðalkönnun á árinu 1990. Könnun verði gerð á öllum árstímum, vetur, vor, sumar og haust. Úrvinnsla fer síðan fram á árinu 1991. Jafnframt því sem þáltill. um manneldis- og neyslustefnu var undirbúin var ákveðið að taka saman upplýsinga- og fylgirit þar sem gerð yrði grein fyrir heilsufari íslensku þjóðarinnar almennt og markmiðum í heilbrigðismálum og rætt um áhrif mataræðis á heilsu fólks og á aðaldánarorsakir þjóðarinnar. Þá er í ritinu glöggt yfirlit um framleiðslu og neyslu og helstu áhrifavalda á því sviði. Rit þetta sem hefur að geyma ritgerðir 28 höfunda hafa alþingismenn fyrir nokkru fengið í hendur. Enginn vafi er á að sá fróðleikur, sem þar hefur verið dreginn saman um stöðu manneldismála á Íslandi og leiðir til að hafa áhrif á fæðuval og neysluvenjur,
getur orðið að miklu gagni þeim sem um þetta mál fjalla, bæði á Alþingi og almennt í þjóðfélaginu.
    Hér á landi hefur manneldisráð haft forustu um setningu markmiða á sviði manneldismála. Eru manneldismarkmið ráðsins lögð til grundvallar í stefnumörkun í þáltill. þeirri sem hér er kynnt. Mun ég nú rekja meginefni þáltill. og þau markmið sem hún byggir á. Lagt er til að Alþingi álykti að á árunum 1990--2000 skuli stefnt að eftirfarandi aðgerðum til að bæta fæðuval og neysluvenjur Íslendinga.
    1. Innlend matvælaframleiðsla falli að settum manneldismarkmiðum. Sérstaka áherslu skal leggja á að draga úr sykur- og fituinnihaldi matvæla og viðhalda jákvæðum þáttum íslenskrar matarhefðar. Við innflutning matvara skal gæta sömu meginmarkmiða um sykur- og fituinnihald.

    2. Að tekið sé mið af settum manneldismarkmiðum við ákvörðun tolla og skatta og hvers konar annarra opinberra aðgerða sem hafa áhrif á verðlag matvæla, svo sem við ákvörðun niðurgreiðslna.
    3. Auka fræðslu í matreiðslu og almennt um manneldis- og neyslumál í grunnskólum og í framhaldsskólum landsins.
    4. Að efla nám í matvælaiðnaði, heimilisfræðslu og nám fyrir starfsmenn og stjórnendur mötuneyta, veitingastaða og skyndibitastaða.
    5. Nemendur í grunn- og framhaldsskólum eigi kost á að borða í skólunum.
    6. Að auka almenna fræðslu á kynningu um tengsl mataræðis og heilsu og hvers konar önnur næringarfræðileg efni.
    7. Að áhersla sé lögð á almenna fræðslu um tengsl heilsufars og líkamlegar hreyfingar.
    8. Að haft verði strangt eftirlit með matvælum með tilliti til smithættu, aukefna og aðskotaefna sem hættuleg geta verið heilsu manna.
    9. Að heilbrmrh. láti gera heildarúttekt árið 1990 á fæðuvenjum þjóðarinnar. Þar komi fram m.a. hlutdeild einstakra matvara í daglegri fæðu fólks og magn einstakra næringarefna. Skýrsla um niðurstöður könnunarinnar skal lögð fyrir Alþingi þegar hún liggur fyrir. Niðurstöður neyslukönnunarinnar skulu lagðar til grundvallar aðgerðum í manneldismálum skv. 1.--7. tölul. Á árunum 1990--2000 skal gera smærri neysluathuganir í því skyni að fylgjast með þróun neyslunnar. Skulu niðurstöður slíkrar athugunar lagðar fyrir Alþingi í fyrsta sinn eigi síðar en árið 1996.
10. Að metin verði hlutdeild innlendrar matvælaframleiðslu í fæðu þjóðarinnar á grundvelli neyslukönnunarinnar. Niðurstöður þeirrar könnunar skulu lagðar til grundvallar við gerð áætlunar um æskilega og nauðsynlega hlutdeild innlendrar framleiðslu í heildarnæringarþörf þjóðarinnar. Verði þar tekið tillit til almennra hagkvæmnisjónarmiða og nýtingar innlendra auðlinda. Einnig verði tekið tillit til mataröryggis þjóðarinnar ef aðflutningar teppast eða nauðsynleg öflun matvæla erlendis frá er hindruð með öðrum hætti.
11. Efldar verði rannsóknir á sviði næringar og heilsu og innlendrar matvælarannsóknar.
12. Endurskoðuð verði stefnumótun í manneldis- og neyslumálum með hliðsjón af nýrri þekkingu á hverjum tíma, ekki sjaldnar en einu sinni á áratug.
    Meginmarkmið við framkvæmd ofangreindra aðgerða eru eftirfarandi:
    1. Að heildarneysla orkuefna miðist við að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd. Á síðari tímum hefur orðið sú breyting á lifnaðarháttum þorra manna að mikil líkamleg áreynsla við vinnu er úr sögunni. Því þarf að draga úr orkumagni fæðisins í samræmi við það. Samt sem áður þarf að fást í daglegu fæði jafnmikið af steinefnum og flestum vítamínum eins og áður ásamt fæðutrefjum sem kyrrsetumenn mega síst án vera. Því er ráðlegt að skerða hlut orkuauðugra og bætiefnasnauðra fæðutegunda, svo sem sætra og feitra matvæla.

    2. Að kolvetnisneysla aukist og að úr þeim fáist 50--60% af orkunni, einkum úr grófu korni, kartöflum, grænmeti og ávöxtum og að dragi úr sykurneyslu. Stefnt skal að því að ekki fáist meira en 10% orkunnar úr sykri en samkvæmt könnun manneldisráðs frá 1979--1980 gaf sykurinn um 19% að meðaltali af heildarorku fæðisins. Kostir þess að skerða sykurneyslu eru einkum að með því dregur úr hættu á tannskemmdum. Einnig fá þá fjölþættari fæðutegundir stærri hlutdeild í heildarneyslunni.
    3. Að heildarfituneyslan minnki og að fitan verði mýkri. Lagt er til að fituneyslan fari ekki yfir 35% heildarorkunnar, en samkvæmt könnun manneldisráðs 1979--1980 gaf fita að meðaltali 41% af orkumagni fæðisins.
    4. Að hvíta, prótein, verði áfram rífleg í fæðu Íslendinga. Hæfilegt er talið að hún veiti a.m.k. 10% orkunnar en var að meðaltali 16% orkunnar samkvæmt könnun manneldisráðs 1979--1980.
    5. Að saltneyslan minnki þannig að dagsneysla fari ekki yfir 8 grömm í matreiðslu og við borðhald dag hvern. Talið er að mikil saltneysla geti átt þátt í að auka háþrýsting. Of hár blóðþrýstingur, háþrýstingur, er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.
    6. Að D-vítamínneysla fari ekki undir ráðlagðan dagskammt af D-vítamíni. Samkvæmt neyslukönnun manneldisráðs 1979--1980 var að meðaltali of lítið af
D-vítamíni í daglegu fæði landsmanna miðað við ráðlagða dagskammta. Ráðlegt er að bæta úr því með lýsisneyslu. Í einni teskeið af þorskalýsi fæst dagskammtur af D-vítamíni og að auki fjölmettuð fita.
    7. Að fæðuval verði sem fjölbreyttast, úr mjólkurmat, kornmat, kartöflum, grænmeti og ávöxtum, kjöti, fiski og eggjum.
    Stefnumörkun sem þessi hefur þegar farið fram í mörgum nágrannalandanna og stefnt er að sameiginlegri markmiðasetningu á þessu sviði innan landa Evrópubandalagsins. Neyslan sýnir að ríkulegt framboð matvara er ekki trygging fyrir æskilegri samsetningu fæðunnar. Þetta hefur komið glöggt í ljós meðal þjóða Vesturlanda þar sem ýmiss konar sjúkdómar er tengjast fæðuvali aukast stöðugt þrátt fyrir ríkulegt framboð matvæla. Því er talin ástæða fyrir stjórnvöld að fylgjast með neyslunni og beina henni, ef ástæða er til, í heppilegri farveg með fræðslu, kynningu og beitingu stjórnvaldsaðgerða sem til þess eru fallnar. Á sama hátt má með stjórnvaldsaðgerðum og upplýsingastarfi á vettvangi matvælaframleiðslunnar hafa áhrif á framboð matvæla. Sem dæmi má nefna fituminni fæðu sem komið hefur á markaðinn síðustu ár, verðfellingu á feitu dilkakjöti til bænda sem tekin var upp 1987 og loks er til umræðu að bændur fái eftirleiðis greitt miðað við hvítuinnihald mjólkur í stað þess að greiða fyrir fituinnihald eins og tíðkast hefur.
    Að lokum vil ég, virðulegi forseti, leggja áherslu á að með þáltill. þessari er stigið fyrsta skrefið í mjög viðamikilli aðgerð í manneldismálum hér á landi. Ekki er ætlunin að framfylgja matvælastefnunni með boðum og bönnum heldur jákvæðri fræðslu og upplýsingum

fyrir almenning og góðri samvinnu við þá sem matvælin framleiða og einnig þá sem flytja matvælin til landsins. Það er í þessum anda sem stefnumörkunin hefur verið undirbúin og heilbr.- og trmrh. þakkar öllu því fólki sem þar hefur lagt hönd á plóginn. Það er mikils virði fyrir framgang þessa máls hversu góð samstaða náðist í undirbúningshópnum um þau meginmarkmið sem manneldisstefnan byggir á. Ljóst er að þeim markmiðum, sem sett eru fram í þáltill. þessari, þarf að fylgja eftir með umfangsmiklu upplýsinga- og leiðbeiningarstarfi og heilbrigðisyfirvaldanna bíður mikið verk á næstu árum. Í því sambandi þarf að leita samstarfs við þá fjölmörgu aðila í þjóðfélaginu sem þessi mál varða.
    Ég vil að lokinni þessari framsögu, sem ég hef flutt fyrir hönd heilbr.- og trmrh., leggja til að málinu verði að lokinni umræðu vísað til síðari umræðu og hv. félmn. Ég vil taka það fram að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lagt á það mikla áherslu að mál þetta megi afgreiða á þessu þingi.