Manneldis-og neyslustefna
Laugardaginn 06. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður vil ég fagna því að hér skuli vera lögð fram tillaga um manneldis- og neyslustefnu. Það er sannarlega kominn tími til að Íslendingar marki sér slíka stefnu. Mörg nágrannalönd okkar hafa þegar gert það og er sú stefna gjarnan nefnd næringarpólitík. Þetta er pólitík sem allir flokkar eiga að geta orðið sammála um, þ.e. flokkar sem viðurkenna þá staðreynd að mataræði hafi áhrif á heilsu manna.
    Meginmarkmiðin í þeirri tillögu sem hér um ræðir eru mjög viðamikil, enda er um stórmál að ræða. Til að ná þessum markmiðum er bent á fjölda aðgerða sem ríkisstjórn skuli beita sér fyrir á árunum 1990--2000. Allar eru þessar aðgerðir mjög þarfar til að ná heildarmarkmiðunum. En ég vil gjarnan taka út einn lið og gera hann að umræðuefni hér, reyndar minntist hv. síðasti ræðumaður einnig á hann, en hann varðar aðbúnað barna í skólum.
    Þessi liður er e-liðurinn í tillögunni og þar segir, með leyfi forseta: ,,Að nemendur í grunn- og framhaldsskólum eigi kost á að borða í skólunum.`` Skólinn er vinnustaður barna og unglinga. Það tíðkast og þykir sjálfsagt að fullorðnir geti gengið að hádegismat á sínum vinnustað en það sama gildir ekki um börn og unglinga sem eru í örum vexti og þurfa því á sérstaklega kjarngóðri fæðu að halda. Lengi býr að fyrstu gerð og vannæring í orku getur tafið fyrir andlegum og líkamlegum þroska, jafnvel þannig að barnið bíði þess ekki bætur alla ævi. Sé engan mat að hafa í skólunum, eins og nú er, er iðulega nærtækast að skreppa í einhverja af fjöldamörgum sjoppum sem staðsettar eru í nágrenni við skólana. Þar er hægt að kaupa sælgæti og gosdrykki sem teljast vart til kjarngóðrar fæðu. Til að stemma stigu við þessu þyrfti að vera framboð á hollri fæðu og fjölbreyttri í skólum landsins. Hér er ekki átt við að reisa þurfi margra milljóna kr. mötuneyti við hvern skóla þar sem boðið yrði upp á margháttaðar máltíðir með öllu tilheyrandi. En það er brýnt að skapa þá aðstöðu sem þarf til þess að börnin fái þar hollan og fjölbreytilegan mat.
    Ég vil í þessu sambandi einnig undirstrika og minna á þær tillögur sem Kvennalistinn hefur flutt varðandi þennan þátt, þ.e. aðbúnað barna og unglinga í skólum landsins, en við höfum flutt viðamikið frv. um samfelldan skóladag í grunnskólum þar sem gert er ráð fyrir skólamáltíðum. Einnig fluttum við brtt. við frv. til laga um framhaldsskóla á síðasta ári þar sem við lögðum til að mötuneyti yrðu starfrækt við hvern einasta framhaldsskóla landsins en sú tillaga var felld. Við höfum einnig flutt tillögu um það að launakostnaður við mötuneyti framhaldsskólanema verði greiddur úr ríkissjóði en það hefur ekki enn hlotið samþykki. Þá vil ég einnig benda á að nýlega höfum við lagt fram þáltill. um að stofnaðar verði heimilisrekstrarbrautir við framhaldsskóla þar sem unglingum verði kennd undirstöðuatriði í heimilisrekstri og þar eru að sjálfsögðu næringarfræði og heilbrigðisfræði stór þáttur.
    Ég valdi að taka aðeins einn lið út úr þessari

tillögu núna. Hann er einn af mörgum sem þarf að taka mjög föstum tökum. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að auðvitað skiptir mestu máli hvernig til tekst með framkvæmdina, og þar kemur auðvitað til kasta stjórnvalda að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í þessari tillögu. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að æskilegar neysluvenjur eru undirstaða heilbrigðs lífs og það þarf að fræða fólkið í landinu um gildi þess að temja sér góðar neysluvenjur og gera því kleift að lifa samkvæmt þeim. Þar kemur enn og aftur að verðlagningu á matvælum. Hér um síðustu áramót var okkur sagt að það þyrfti að hafa allt einfalt og leggja jafnan skatt á allt, þar með talin matvæli, til þess að tryggja einfeldni. En með því að leggja fram tillögu um manneldis- og neyslustefnu tel ég að til þurfi að koma verðstýring og afnám eða a.m.k. lækkun matarskattsins til að gera fólki kleift að lifa samkvæmt þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa sett sér. Á þann hátt er best staðið að andlegu og líkamlegu heilbrigði þjóðarinnar. Í kjölfar heilbrigðari og hollari lífshátta ætti að geta dregið úr þeirri gífurlegu og óeðlilega miklu lyfjanotkun sem tíðkast hér á landi og sömuleiðis ætti þörf fyrir sjúkrarými að minnka. Hér er sem sagt um stefnu að ræða sem felur í sér mikið forvarnarstarf og fellur að stefnu Alþjóðaheilbrigðisráðsins um heilbrigði fyrir alla árið 2000.
    Þótt skammt sé eftir af þingstörfum þetta vorið vona ég að það takist að ná því fram að samþykkja þessa tillögu. Það þarf að sjálfsögðu að gefa þeirri nefnd sem um hana á að fjalla tækifæri til að kynna sér vel þetta viðamikla mál þannig að stjórnvöld hafi þetta skjal í höndunum næst þegar taka þarf ákvarðanir um verðlagningu matvæla. Hér eftir verði það sem sagt heilbrigðið sem fyrst og fremst verður haft að leiðarljósi.