Manneldis-og neyslustefna
Laugardaginn 06. maí 1989

     Pálmi Jónsson:
    Það mál sem hér er á dagskrá er að sjálfsögðu ekki flokkspólitískt mál og getur ekki orðið í eðli sínu, heldur er hér um að ræða tilraun af hálfu stjórnvalda til þess að marka stefnu sem á að miða að tímanlegri velferð mannfólksins í landinu. Það er auðvitað að mínum dómi mjög góðra gjalda vert af hálfu stjórnvalda að hvetja til hollustu og heilbrigðs lífernis og flytja um það tillögur eða marka stefnu, en ég get ekki látið hjá líða að lýsa þeirri skoðun minni að það hljóti að vera takmörk fyrir því hversu langt eigi að ganga með opinberum afskiptum af slíkum málum. Ég held að ákjósanlegt sé að finna meðalveg á milli þessara andstæðu sjónarmiða, þeirra hversu langt eigi að ganga með opinberum afskiptum og á hinn bóginn hvatningar, sem eiga að miða að því að varðveita heilbrigði þjóðarinnar og hollustusemi í almennu lífi einstaklinganna.
    Ég get tekið undir mjög margt sem er í þessari tillögu og sumpart fjallar hún um sjálfsagða hluti. Hér hefur ýmislegt verið nefnt og ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Ég held að það sé t.d. mjög þarft að leggja áherslu á almenna fræðslu um tengsl heilsufars og líkamlegrar hreyfingar og er ég viss um að hæstv. forsrh. mælir þar af heilum hug þegar hann mælir fyrir slíkri stefnu. Það er ég sannfærður um.
    Það er einnig mjög þarft og nauðsynlegt, og verður að vera löggjafaratriði, svo að dæmi sé tekið, að hafa strangt eftirlit með matvælum með tilliti til smithættu, aukaefna og aðskotaefna sem hættuleg geta verið heilsu manna. Hér er atriði sem er dæmi um það sem er nauðsynlegt að sé löggjafaratriði.
    Ég get einnig drepið á, sem mér finnst vera mjög nauðsynlegt til athugunar í þessum efnum öllum, eins og segir hér í j-lið, að metin verði hlutdeild innlendrar matvælaframleiðslu í fæðu þjóðarinnar á grundvelli neyslukönnunar. Niðurstöður verði lagðar til grundvallar við gerð áætlunar um æskilega og nauðsynlega hlutdeild innlendrar framleiðslu í heildarnæringarþörf þjóðarinnar. Sé þar tekið tillit til almennra hagkvæmnisjónarmiða og nýtingar innlendra auðlinda og einnig sé tillit tekið til mataröryggis þjóðarinnar ef aðflutningar teppast eða nauðsynleg öflun matvæla erlendis frá er hindruð með öðrum hætti. Þetta er mjög mikilvægt stefnuatriði þótt vandséð sé hvort það geti orðið löggjafaratriði.
    Í ýmsum þeim atriðum sem tillagan grípur á er þannig um það að ræða að sumt er til ábendingar eða leiðbeiningar fyrir þjóðina en annað er nauðsynlegt að sé löggjafaratriði. Ég vil hins vegar taka það fram að ég vil gjarnan ráða því sjálfur hvað ég vel mér til matar og ég er eiginlega sannfærður um það að hæstv. forsrh. vill líka vera sjálfráður í því hvaða mat hann velur sér og ekki lúta þar opinberum afskiptum, jafnvel þó að hann sé sjálfur höfuð þeirra opinberu afskipta. Þetta er ég alveg sannfærður um. Og ég held að það geti ekki orðið löggjafaratriði. Ég mundi ekki vilja sætta mig við það að ég ætti t.d. sem einstaklingur í þessu landi að lúta opinberum fyrirmælum um það hvað ég legði mér til munns.

Spursmál er enda hvort neysluhættir þjóðarinnar séu með þeim ósköpum að þessu leyti að ástæða sé til að hafa þar mjög miklar áhyggjur af. Ég er ekki viss um það. Það liggur fyrir í opinberum skýrslum að Íslendingar verða elstir eða meðal þeirra allra elstu, bæði karla og kvenna á jarðarkringlunni. Og ekki bendir það til þess að við lifum hér sérstaklega óhollu lífi eða höfum matarvenjur sem eru verri en gengur og gerist meðal þjóða heimsins.
    Ég tek eftir því í þessari tillögu að nokkuð mikil áhersla er lögð á það að draga beri úr sykurneyslu og draga úr neyslu feitmetis, en nú vill svo til að Íslendingar éta meiri sykur en allar þjóðir aðrar. Nú er það mjög á orði haft að sykur sé óholl neysluvara og síst skal ég mæla á móti því að við getum alveg komist af án þess að borða jafnmikinn sykur og raun ber vitni. En svo vill líka til að Íslendingar hafa, a.m.k. fram undir þetta, etið meira af dýrafitu en aðrar þjóðir, jafnvel allar aðrar þjóðir, og ekki bendir nú þetta til þess að þetta sé okkur óhollt þegar við lifum lengur en allir aðrir. Það er enda umdeilt meðal lækna, og hér talaði læknir rétt áðan og þeir hafa auðvitað misjafnar skoðanir á því, hversu óhollt það er að eta dýrafitu og jafnvel skortur á dýrafitu getur að áliti sumra lækna valdið hættu á sjúkdómum, svo sem eins og krabbameini. Nú ætla ég ekki að fara hér í langa útlistun á þessu máli. Ég kem aðallega til þess að segja það sem mína skoðun að það eru takmörk fyrir því hvað opinber afskipti eiga að vera mikil og vekja á því athygli að Íslendingar lifa lengst allra þjóða þó að við borðum meiri dýrafitu og meiri sykur en aðrar þjóðir.