Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Aðeins út af því sem hv. 1. þm. Reykv. spurði hér um, með hvaða hætti það sé framkvæmanlegt að ríkisstjórnin reyni að tryggja að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa eða viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs þar sem innlendir aðilar keppi á jafnréttisgrundvelli við erlendan skipaiðnað, m.a. hvað snertir meðferð tilboða og fjármagnsfyrirgreiðslu.
    Ég get verið alveg sammála þeim vilja sem þarna kemur fram en hitt er svo annað mál að það er ekki þar með sagt að það sé mjög auðvelt að framfylgja þessum vilja eða tryggja það að ekkert gerist í þessu sem getur talist óhagkvæmt fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað því að markmiðin í þessu hljóta að vera tvö: Annars vegar að íslenskur sjávarútvegur fái alltaf notið bestu kjara í kaupum á sínum aðföngum. Það er að mínu mati mjög mikilvægt. Íslenskur sjávarútvegur keppir á alþjóðlegum mörkuðum og staða hans er ekki með þeim hætti að hann þoli meiri tilkostnað en er samsvarandi því sem býðst á alþjóðlegum mörkuðum. Það er hins vegar mjög mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að hér sé öflugur skipasmíða- og viðgerðaiðnaður og það eru hagsmunir sjávarútvegsins jafnframt að þessi iðnaður gangi með eðlilegum hætti.
    Það er alveg rétt að Fiskveiðasjóður hefur talið það vera sitt aðalhlutskipti að tryggja það að íslenskur sjávarútvegur fái aðföng sín með sem ódýrustum hætti, en það hefur margsinnis verið rætt við Fiskveiðasjóð að þeir reyni að koma því til leiðar að slíkt sem hér er gefið til kynna gerist ekki, þ.e. að útvegsmenn fara oft og tíðum með verkefni sín erlendis og þau verða oft og tíðum dýrari en hefði orðið hér innan lands. Ég tel að þarna skorti oft vandaðan undirbúning og þá er það spurningin hver á að sjá til þess að undirbúningurinn sé vandaður. Þar er ekki nægilegt að koma á miðstýringu. Það þarf jafnframt að brýna fyrir aðilum sem fara út í slíkt að vanda sinn undirbúning betur og ég tel að með samvinnu aðila í skipasmíðaiðnaði og sjóðanna megi koma því til leiðar án mikilla þvingana. Þess vegna er það alveg rétt sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér, það var samdóma álit okkar á sínum tíma að það væri rétt að Fiskveiðasjóður og útvegsmenn kæmu inn í þetta samstarfsverkefni og ég veit ekki betur en að þeir hafi gert það af heilum hug og með því tel ég að hafið sé samstarf milli þessara aðila sem á skorti áður um það að menn ræði þessi mál saman en séu ekki ávallt að hnýta hver í annan og kenna hver öðrum um það sem úrskeiðis hefur farið.
    Þannig hefur Fiskveiðasjóður oft mátt þola það að sjóðnum sé beinlínis kennt um það sem úrskeiðis fer því að auðvitað getur hann ekki tryggt það í öllum tilvikum frekar en ýmislegt annað í þessu þjóðfélagi. Við sjáum það oft og tíðum að innlend vara er ekki boðin til sölu jafnvel hjá íslenskum iðnfyrirtækjum. Og hver á að tryggja það að svo sé? Sem dæmi get ég nefnt að ég þurfti að kaupa málningu fyrir nokkrum dögum og fór inn í stærstu

byggingarvöruverslun landsins sem er jafnframt iðnaðarfyrirtæki. Þeir áttu ekki eina einustu dós frá innlendum aðila og seldu bara erlendar dósir. Iðnaðurinn þarf því að sjálfsögðu stundum að líta í eigin barm og gæta þess að ætlast ekki til alls af öðrum en hugsa kannski líka um það að reyna að koma íslenskri vöru á framfæri og reyna að bæta samkeppnisstöðu hennar.
    Ég mun að sjálfsögðu, verði þessi tillaga samþykkt, og ég get alveg fellt mig við hana, ræða þessi mál enn á ný við Fiskveiðasjóð í þeim tilgangi að gera það sem hér segir, að reyna að tryggja það að útvegsmenn og opinberir sjóðir semji ekki um nýsmíði skipa og viðhaldsverkefni erlendis án undangengins útboðs. Ég vil jafnframt taka það fram að Fiskveiðasjóður lánar meira út á innlenda nýsmíði en erlenda og það verður jafnframt að geta þess að Byggðasjóður hefur fengið sérstakt fjármagn til þess að reyna að tryggja samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar og ég veit ekki betur en að það hafi heppnast nokkuð vel. Að hinu leytinu hefur það líka orðið til þess að stækka íslenska fiskiskipaflotann og fjölga frystiskipum í landinu þannig að menn þurfa nú að skilja að hér er margs að gæta og menn mega ekki verða svo ákafir í viðleitni sinni til að bæta stöðu skipasmíðaiðnaðarins að menn geri íslenskan sjávarútveg mun óhagkvæmari en ella hefði orðið.