Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég spurði hér áðan hæstv. viðsk.- og iðnrh. hver væri heildarstefna varðandi fjármagnsmarkaðinn. Ég tel að vandi íslensks skipasmíðaiðnaðar sé einmitt hluti af stærri efnahagsvanda og þeim vanda sem önnur fyrirtæki eiga líka við að glíma hér á Íslandi. Hæstv. ráðherra svaraði þessu ekki og þess vegna ætla ég að ítreka þessa spurningu vegna þess að ég tel að hér sé um grundvallaratriði að ræða. Það er ekki hægt að ræða vandamál íslensks skipasmíðaiðnaðar einangrað eitt og sér eins og það komi efnahagskerfinu á Íslandi ekkert við. Þetta vandamál hlýtur að vera angi af stærra máli. Af hverju gengur íslenskum skipasmíðaiðnaði svona illa að keppa við erlendan skipasmíðaiðnað? M.a. vegna þess að það er ekkert lánsfé í boði. Það er miklu auðveldara fyrir þá sem eru að skipta við iðnfyrirtæki erlendis að fá lán, og veitir nú líklega ekki af í sjávarútvegi að fá lán því að ekki eigum við neitt ,,cashflow`` eða staðgreiðslupeninga á hreinni íslensku.
    Ég las hér áðan upp úr lögum um Seðlabanka Íslands, fyrir hæstv. viðskrh. sérstaklega. Ég ætla að gera það aftur: ,,Hlutverk Seðlabankans er m.a. að vinna að því að framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.``
    Enn fremur í 4. gr.: ,,Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstjórnina að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar.`` Slíkar skoðanir hafa ekki heyrst þannig að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hljóta að vera sammála. En hver er þessi heildarstefna? Er hún eitthvert leyndarmál?
    Hér síðar í dag er til umræðu svokallað húsbréfafrv. Hvernig virkar það á heildarstefnuna? Hver á að sitja fyrir fjármagni? Á það að vera sjávarútvegur, á það að vera skipasmíðaiðnaður eða á það að vera ríkissjóður? Hvernig verða verðmæti til? Þau verða til í atvinnulífinu. Á ríkissjóður sem eyðir peningum að sitja fyrir fjármagni eða á atvinnulífið að sitja fyrir fjármagni? Þetta eru grundvallaratriði sem ég óska að hæstv. viðskrh. svari hér. Hvað er gert til þess að reyna að tempra gífurlega eftirspurn ríkissjóðs í fjármagn?
    Mér finnst í raun alveg skelfilegt til þess að vita að menn skuli geta leyft sér að mergsjúga íslenska atvinnuvegi og íslenska fjármagnsmarkaðinn og láta svo sem ekkert sé. Ég óska þess, hæstv. viðskrh., að fá svar við þessum spurningum.