Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna því að mál þetta skuli nú loks vera komið til umræðu í sameinuðu Alþingi. Það hefði auðvitað mátt gerast miklu fyrr, líklega mánuðum fyrr en nú er. Ég er mjög ánægður með þetta samkomulag. Ég tjáði raunar hæstv. sjútvrh. það rétt áður en samningurinn var gerður. Þegar hann var svo vinsamlegur að hafa við mig samband tjáði ég honum það auðvitað í trúnaði að ég mundi berjast fyrir því að þessi samningur yrði samþykktur. Hver mótstaða sem kynni að birtast, þá ætti hann a.m.k. minn stuðning vísan. Þetta er ekkert launungarmál lengur. Sem betur fer var engin mótstaða eða lítil. Þó varð þess nú vart að það þurfti að taka dálítið stórt upp í sig til þess að fá menn til þess að skilja hvað í húfi var. En góðu heilli er nú málið komið hér til væntanlegrar afgreiðslu og þá í utanrmn., býst ég við, á mánudaginn kemur og því fagna ég auðvitað mjög.
    Hins vegar verð ég að harma það að mér finnst áhugi hæstv. núv. ráðherra utanríkismála og raunar kannski ráðherranna í heild á hafréttarmálum sáralítill. Hér í skýrslu hæstv. utanrrh. var það varla að minnst væri á hafréttarmálin, hvorki í þeirri skriflegu né munnlegri ræðu sem ég fagnaði af mörgum öðrum sökum sem ágætis ræðu.
    Það er eins og menn hafi gleymt því að við höfum á hendinni hvorki meira né minna en það með nágrönnum okkar, bandalagsþjóðum, frændum og vinum að taka eftir réttum lögum allt hafsbotnssvæðið, ég endurtek, allt hafsbotnssvæðið frá Noregs- og Skotlandsströndum til Kanada, friða það, vernda, rækta með samningum við nágranna okkar um aldur og ævi. Þetta hreinlega gleymist í umræðum á hinu háa Alþingi. Það var ákveðið í umræðum um hafsbotnssvæðið á milli Jan Mayen, Íslands og Grænlands annars vegar og Noregs hins vegar að fund embættismanna, þann þriðja í röðinni, hygg ég, ætti að halda í síðasta lagi í marsmánuði sl. Hann hefur gleymst. Þó vitum við að norskir ráðamenn, bæði norski utanríkisráðherrann og formaður utanríkismálanefndar Noregs sem er úr stjórnarandstöðunni, Kare Willoch, skilja og vita að rök þau sem Íslendingar hafa lagt á borðið fyrir því að þessar þjóðir geti helgað sér þetta svæði eru rétt. Það er ekkert annað að gera en að framkvæma þetta og senda tilkynningu til Sameinuðu þjóðanna um að málið sé afgreitt og gert, nákvæmlega eins og við gerðum á Reykjaneshrygg.
    Ég ætla þá að koma að Reykjaneshrygg. Við eigum þar hafsbotnsréttindi út í 350 mílur sem við höfum helgað okkur með samþykkt Alþingis. Þetta svæði hefur ekkert verið nýtt af Íslendingum. Það hefur verið sinnuleysi um að nýta það. Það eru nú uppi áform um að byrja að gera þetta. Á sama tíma hafa hins vegar tugir og stundum, hygg ég, hundruð skipa frá fjarlægum löndum, þ.e. Austur-Evrópulöndum, verið að karfaveiðum á þessu svæði, ólöglegum veiðum, vegna þess að við höfum fullveldisrétt yfir hafsbotnssvæðunum sem við helgum okkur. Við eigum

þau og megum einir nýta þau nema við samþykkjum að aðrir geri það. Í þessum fullveldisrétti eru fólgin öll auðæfi hafsbotnsins og allra lífvera sem á honum eru og hreyfa sig með snertingu við botninn, ekki bara sem sagt botninn sjálfur, heldur líka lífverurnar á honum. Sá sem kemur þess vegna með skel eða stein upp í vörpu hann má taka og færa til hafnar. Þetta eru alþjóðalög í raun. Þjóðir heims eru að 3 / 4 hlutum eða svo strandríki. Strandríkin hafa hingað til markað hafréttinn. Þau eru að því enn þá. Þau eru á fleygiferð að helga sér hafsbotnsréttindi og tryggja sér þau um aldur og ævi, en héðan heyrist varla um málið talað.
    Ég verð að játa það að vísu að hæstv. forsrh. tók málið upp við forsætisráðherra Breta að því er varðar Hatton-Rockall-svæðið sem er kannski enn þá þýðingarmeira en Reykjaneshryggur, svo gífurlega víðáttumikið sem það er, og þar eru líka auðug fiskimið sem ekkert hafa verið nýtt, engin tilraun verið gerð til að örva Íslendinga til að fara að veiða á þessum sínum miðum, ekki fram á þennan dag, hafa tekið það upp við forsætisráðherra Breta, Margréti Thatcher. Hún óskaði eftir bréfi frá Íslendingum frá hæstv. utanrrh. (Gripið fram í.) Já, hæstv. þáv. forsrh. Hann var orðinn forsrh. þá, ég bið afsökunar, að sjálfsögðu. Og því var auðvitað lofað. Það liðu mánuðir án þess að það væri sent. Auðvitað átti þetta bréf að fara samdægurs. Í farteski sínu hafði ráðherrann allt sem til þess þurfti að afgreiða bréfið á örskömmum tíma, ef ekki samdægurs þá næsta dag eða þar næsta. Áhugaleysið er svona, því miður. Nú veit ég að þetta er ekki af illvilja gert eða vegna þess að menn vilji ekki Íslandi og íslenskum hagsmunum sem allra best í bráð og lengd. Auðvitað vilja þessir menn það ekkert síður en við hin en það verður að gefa sér tíma til að hugsa um meginmálefni þessarar þjóðar. Það er hægt að rífast hér um efnahagsmálin lon og don og gefa sér tíma til þess, en það er varla tími til þess einu sinni að taka mál eins og þetta fyrir hér á hinu háa Alþingi.
    Það eru mörg fleiri mál sem eru óleyst. Það eru fleiri sameiginlegir stofnar með Grænlendingum en loðnan. Auðvitað er það karfinn líka, auðvitað er það þorskurinn líka og margt og margt.
    Og að því er Færeyinga varðar, þá er það nú sannað að þeir strádrepa íslenskan lax, ólöglega eftir hafréttarsáttmálanum. Að vísu gerðist það slys
hér að árið 1982 var haldinn fundur og stofnuð einhver samtök sem leyfðu Færeyingum ólöglegar veiðar fram til þess tíma en við verðum að hafa allt í hendi okkar að stöðva þær. Kannski verður hafbeit það sem verður mikilvægast fyrir okkur Íslendinga, hafbeit á mörgum tegundum, fyrst og fremst kannski sjávarfiskunum miklu frekar en vatnafiskunum. En þetta er líka mikilvægt fyrir Færeyinga. Þeir hafa alla aðstöðu til þess að stunda hafbeit í stórum stíl. Þeir þurfa ekkert að sækja fisk út í Ballarhaf og jafnvel inn í okkar landhelgi. Þeir geta ræktað hann rétt eins og við. Þeir hafa aðstöðu til hafbeitarinnar. Nei, nei. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tíma á

árlegum fundum, um að við úthlutuðum þeim einhverjum kvótum, verið einu sinni svo mikið sem orðað við þá að þeir ættu að hætta þessum laxveiðum. Ef það hefur verið gert er mér ókunnugt um það. Ég hef margsinnis þó tekið það upp í utanrmn. og óskað þess við viðkomandi ráðherra að þessi mál yrðu tengd saman eðli málsins samkvæmt.
    En þetta er kannski ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það sem við máttum t.d. hlusta á núna í sjónvarpinu síðustu kvöldin að jafnvel hæstv. utanrrh. heldur því fram að það sé einhver meginstefna Efnahagsbandalags Evrópu að heimta fiskveiðiheimildir gegn viðskiptaheimildum, að það sé einhver meginstefna. Þeir eru kannski að heimta það af Austurríkismönnum, það er verið reyna að semja við þá, að fá fiskveiðiheimildir þar eða hjá Svisslendingum og öðrum. Þetta er engin meginstefna. Því er haldið fram að Evrópubandalagið hafi slíka samninga við allar þjóðir í Evrópu. Ég veit ekki til að þeir hafi neina slíka samninga. Þeir höfðu það í Kanada. En þeim hefur verið sagt upp og þeir fá þá aldrei aftur, að sjálfsögðu. En hérna er niðurlægingin svo mikil að við eigum að búa okkur til drauga, vekja þá upp. Það hefur staðið í öllum plöggum sem ég hef séð, fyrst sem formaður utanrmn. og síðan sem meðlimur þar, og komið fram bæði í ferð utanrmn. til Strasbourg og Brussel í september 1987 og einnig ferð Evrópunefndarinnar nú fyrir skemmstu til Genfar og Brussel að það er engin krafa af hálfu Evrópubandalagsins um neinar veiðar hjá okkur. Hún er ekki til. Það lengsta sem þeir hafa gengið er að tala um að þeir vilji við okkur díalóg. Hvað þýðir díalóg? Á leiksviðinu þýðir það víst tveggja manna tal eða gerði. Það þýðir einhvers konar rabb um hagsmunamál okkar í heild, ekki um veiðiheimildir heldur um hagsmunamál okkar í heild. Við höfum alltaf sagt: Við erum reiðubúnir að fara í þennan díalóg. Ég sem formaður utanrmn. lýsti því yfir þegar þetta var orðað úti í Strasbourg með samþykki allrar nefndarinnar. Við vorum samstiga í einu og öllu þar, að þennan díalóg mætti taka upp hvenær sem væri. Að vísu gætum við ekki gert það, við værum ekki embættismenn, en við vissum að íslenskir embættismenn og ráðherrar mundu vera reiðubúnir að koma til Brussel. Það var raunar orðað að það væri kannski hægt að hittast bara leynilega einhvers staðar, í Kaupmannahöfn. Ég lýsti því líka yfir fyrir hönd nefndarinnar að við værum ekki reiðubúnir til slíks, þó að við þyrðum vel að mæta þeim hvar sem væri. Þeir gætu komið til Brussel þess vegna eða heim til Íslands.
    Þetta er ekki málefni sjútvrh. eins og hæstv. utanrrh. sagði í sjónvarpinu. Og aumingja stjórnandi þessara dýru þátta var náttúrlega með þetta alltaf hreint uppi, að Efnahagsbandalagið væri að krefjast hérna veiðiheimilda sem það hefur alls ekki gert frá 1986 a.m.k. Auðvitað er eitthvert skrifstofufólk að orða þetta, en það eru 40 eða 50 manns, eitthvað svipað og hjá sjútvrh. sem sinnir þessu af 14 eða 15 þúsund manna embættismannaliði. En þið vitið það öll

hér, hæstv. ráðherrar og aðrir, að það er engin krafa af hálfu þeirra sem ráða Evrópubandalaginu um fiskveiðar í íslenskri efnahagslögsögu. Þeir tala um díalóg, þeir vilji hitta okkur og ræða um sameiginleg áhugamál okkar. Og þeir vilja að Ísland verði áfram Evrópuþjóð og hrekist ekki yfir á aðra markaði.
    Svo var það sagt víst úti í Moskvu, skilst mér, að þessar kröfur væru uppi hafðar af hálfu Evrópubandalagsins á hendur Íslendingum. Því skyldu þá ekki Rússar krefjast þess, enda hafa þeir gert það? Þeir eru að krefjast veiðiheimildar. Það er upplýst. Ég skil ekki hvað þessi vinnubrögð eiga að þýða, að geta ekki fylgt okkar málstað fram og þurfa sífellt að vekja upp drauga sem eru löngu, löngu steindauðir. Sjávarútvegur í Evrópubandalagslöndunum er af þjóðarframleiðslu samanlagðri, allra ríkjanna, 0,014%. Og það eru nokkrir tugir manna sem sinna þessu. Sá embættismaður sem talaði við okkur í Evrópunefndinni úti í Brussel sagði aðspurður: Evrópubandalagið getur ekki gert neinar kröfur til fiskveiða við Ísland. Okkur er fullljóst að Íslendingar eiga efnahagslögsöguna. Við getum enga kröfu gert. Þetta voru orð þessa embættismanns í viðurvist okkar. Og sama hafa aðrir embættismenn, allir þeir sem ég hef talað við, sagt, og ég hygg að allir þeir sem fóru á þessa tvo fundi viti um það að þetta mál var svona vaxið.
    En í þessum tengslum vil ég þakka hæstv. forsrh. dyggilega og góða framgöngu á Oslóarfundinum þar sem við fengum fríverslunarfisk samþykktan sem væntanlega verður okkur til mikilla hagsbóta. Þar voru lögð á ráðin hvernig ætti að vinna þetta mál. Og hann fór nákvæmlega eftir því sem þar var ákveðið, gefa ekki eftir um hænufet fyrr en þá á síðustu mínútunum. Með þessa síðustu mínútu
sigraði hann í málinu fyrir hönd sinnar þjóðar. Þetta var virkilega þess vert að þess sé getið og því sé haldið á lofti og það geri ég hér með. Hann gerði þetta.
    En nú bið ég þess og skal ekki endilega vera að rífast um það, enda er þetta búið og gert, að héðan í frá verði aldrei haldið fram röngum staðhæfingum um það að Evrópubandalagið sé að krefjast fiskveiðiheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu --- á meðan það er gert, þá er hætta á ferðum --- og að ekki verði látinn líða lengri tími til að fylgja eftir sigrum okkar og samkomulagi við Norðmenn og Dani, fyrir utan Grænlendinga, um hafsbotnssvæðið milli Íslands og Noregs og fylgt eftir viðræðunum við Breta um Rockall-svæðið, og þar með auðvitað Dani, við eigum þar sama hlut. Við höfðum sameiginlegan leiðangur, Danir, Færeyingar og við, eins og menn vita, um rannsókn hafsbotnsins 1987 sem bar mikinn árangur, og Bretum er alveg fullljóst að þeir geta engin réttindi á þessu svæði fengið nema með samningum við okkur. Þeir vita það þó að Íslendingar virðist ekki vita það sumir hverjir eða vilji kannski ekki vita það. Það er eins og t.d. menn hafi líka gleymt því að það var ekki bara einn samningur við Norðmenn um Jan Mayen-svæðið, það er ekki bara samningurinn frá 1980 og hann tekur ekki bara til

loðnu, hann tekur til allra fiskstofna ef hann er rétt lesinn og rétt framkvæmdur, að við eigum 50% réttindi til allrar fiskveiði, en auðvitað getum við glatað þeim réttindum ef við ekkert hagnýtum þau og ekki sýnum neina tilburði til að nýta okkur þau. Það er hættan auðvitað. Og þess vegna er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að nú verði þessu fylgt fram:
    Hæstv. utanrrh. fylgi fram samningum við Noreg og Dani um svæðið sem ég nefndi og hefur verið nefnt norðurslóðir.
    Hæstv. forsrh. og ráðherrarnir báðir fylgi fram samningunum við Breta og Dani um Rockall-svæðið.
    Samvinna verði höfð við Kanadamenn sem eru að færa sín hafsbotnsréttindi út í 600 eða 800 mílur og ég veit ekki hvað.
    Samningar við þessa alla menn og þar með er auðvitað komið að því líka að vernda þetta svæði og þar er hinn rétti vettvangur til þess að beita okkur gegn kjarnorkuvopnum, gegn herbúnaði á þessu svæði þegar við öll eigum þetta svæði, við eigum hafsbotninn. En þetta vinnst ekki.
    En sem sagt, þetta mál er hér komið til umræðu á hinu háa Alþingi og því verður haldið vakandi. Ef aðrir gera það ekki, þá mun ég reyna að gera það. Við höfum þetta allt í hendi okkar ef við nennum að sinna því. Og þó að það sé gott að bjarga einhverjum þjóðum úti í heimi og menn haldi að þeir geti ráðið allri framvindu heimsmálanna, þá ættu þau ferðalög sem farin eru að beinast að því að hugsa um íslenska hagsmuni, hagsmuni norðursins, hagsmuni norðurhafa. Það er allt á borðinu eftir réttum lögum. Það vantar aðeins að fylgja því fram. Við höfum haft alla forustu, Íslendingar. Alþingi Íslendinga hefur nú bráðum í 10 1 / 2 ár ályktað margsinnis um öll þessi mál, í bak og fyrir. Og þegar loksins er í augsýn að leysa þau öllsömul um aldur og ævi eru þau varla nefnd og haldið á loft staðhæfingum sem fá hvergi staðist, að Evrópubandalagið sé að heimta af okkur fiskveiðiréttindi. Það stendur hvergi á blaði og ég hef aldrei heyrt neinn segja það í þeim ferðum sem ég hef farið og hef ég þó talað við æðimarga embættismenn utanrmn., á fundum í sept. 1987 frá morgni til kvölds og langt fram á kvöld, aldrei nokkurn mann. Það kom að vísu til tals hjá Gallagher þeim margfræga að þeir þyrftu nú eitthvað að athuga með karfaveiðarnar. Honum var nú bent á það hvort hugsanlegt væri að þar sem þeir hefðu samninga við Grænlendinga gætu þeir fiskað eitthvað innan við okkar línu eða eitthvað svoleiðis, allt mjög lauslega. Honum var bent á það að karfinn þyrfti að verða eitthvað 16--20 ára til þess að verða kynþroska og það væri ekki hægt að drepa mikið af honum og Japanir væru þegar búnir að semja við Grænlendinga. Hann sneri alveg gjörsamlega við blaðinu, maðurinn. Hann sagði já, það væri stóra hættan. Þá væri þetta ekki annað en rányrkja. Og það eru sameiginlegir hagsmunir okkar og þessara þjóða sem ég hef verið að nefna að leysa þetta. En við Íslendingar höfum haft forustuna. Við höfum bent á leiðirnar og þessir menn hvarvetna hafa samþykkt það sem við höfum verið að

segja. Ættum við þá að fara að snúa við blaðinu? Ég vona að það gerist ekki.