Valdimar Indriðason:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um þá þáltill. sem liggur frammi um samninginn við Grænland og Norðmenn í sambandi við loðnuveiðarnar. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði hér áðan. Það þarf að vera mjög vakandi í þessum málum og fylgja þeim eftir. Þetta er vonandi fyrsta sporið í þeim samningum sem hægt er að gera og ná hér í norðurhöfum um okkar fiskveiðar og númer eitt, tvö og þrjú er að taka upp sem best samskipti við þessar þjóðir í þessum efnum.
    Ég fagna því að þessi samningur er kominn á, en ég furða mig mjög á því þegar ég kem hér inn þessa síðustu daga þingsins að hann skuli ekki vera kominn hér fyrr til umræðu í þinginu. Nú í þinglok --- þingi ætti að vera lokið í dag samkvæmt fyrri áætlun. Þessi samningur verður að komast í gegn núna því 1. júlí tekur hann gildi ef úr honum verður. Það er þetta sem ég furða mig á í starfsemi þingsins að hann skuli ekki vera kominn hér fyrr inn á borð. Ég tel þennan samning til mikilla bóta fyrir okkur Íslendinga vegna þess að um þetta svæði, sem þarna er talað um, hafa staðið miklar deilur og íslensk skip hafa átt í miklum erfiðleikum á þeirri viðkvæmu línu sem liggur þarna milli Grænlands og Íslands hvað fiskveiðimörkin snertir og hefur þeim oft þótt blóðugt að þurfa að bíða ,,okkar`` megin við línuna þegar færeysk skip hafa verið að veiða að vestanverðu fyrri hluta hausts, á vegum Grænlendinga. Ég tel að okkar samninganefnd sem þarna stóð að verkum hafi náð góðum árangri og okkar hlutur hefur ekki minnkað svo verulega. Mér sýnist að Norðmenn hafi þar tekið hvað mest af sínum en þeir ná honum sjálfsagt aftur í samningum við Grænlendinga, kaupa af þeim rétt til veiðanna, því að eftir því sem ég skil samninginn er boðið upp á það að það verði þessar þjóðir fyrst og fremst, Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar, sem Grænlendingar muni taka inn í sitt dæmi. Þeim loðnuafla, sem kemur í hlut Grænlendinga, verður hugsanlega skipt á milli áðurnefndra þjóða. Miðað við síðustu loðnuvertíð er þarna um að ræða 100 þúsund tonn miðað við rúmlega 900 þúsund tonna afla sem þá var, sem þarna kæmu í hlut Grænlendinga. Og í þennan hlut þurfum við að komast, Íslendingar. Þetta mundi lengja vertíð loðnuskipanna og einnig þá verksmiðjanna sem vinna þennan afla.
    Mig langaði til að varpa hér fram einni spurningu, sennilega til hæstv. sjútvrh., hvernig verði staðið að þessu. Ég geri fastlega ráð fyrir að hv. Alþingi samþykki þennan samning og mælist eindregið til þess, en mig langar til að vita hvernig verður staðið að því í sambandi við samninga við Grænlendinga. Ég er enginn miðstýringarmaður. Ég legg hins vegar á það áherslu núna í fyrstu lotunni meðan við erum að komast í gegnum þennan samning sem er til þriggja ára að þarna geti ekki orðið einhver uppboðsmarkaður á þessum hluta sem við gætum keypt af Grænlendingum, og ég vildi að samningar yrðu á vegum t.d. Landssambands ísl. útvegsmanna, að það

verði aðili að þessum samningi en ekki að einstakir útgerðarmenn eða aðrir geti verið að bjóða í þetta til þess að keppa hver við annan. Ég er ekki að biðja um að sjútvrn. eða utanrrn. hafi sérstaklega hönd í bagga með þessu en að fylgst verði með þessu, að þarna sé ekki farið út í neina vitleysu í þessum efnum. Við þurfum á þessum veiðum að halda, en það þarf að vera visst skipulag á þeirri afgreiðslu, á þeim kaupum sem gætu farið fram.