Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vildi nú í fyrsta lagi fagna því að þessir samningar við Grænlendinga hafa náðst. Ég tel það skipta miklu í samskiptum þjóðanna og ég tel það jafnframt skipta miklu um framhald okkar samskipta að þessi samningur hefur loks náðst eftir margra ára samningaþóf. Ég tel þennan samning vera fyllilega viðunandi fyrir okkur þótt það sé að sjálfsögðu þannig með alla samninga að allir aðilar sem að slíkum samningum standa vildu vissulega hafa fengið sinn hlut meiri, en það lá alveg fyrir að ef samningar áttu að nást varð að mætast einhvers staðar og ég tel það hafa verið rétt af þessum þjóðum að ganga frá málinu með þessum hætti og ánægjulegt til þess að vita að um það ríkir góð samstaða hér á Alþingi og í þjóðfélaginu.
    Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði hér. Mér fannst hann í reynd halda því fram að þessi málefni, þ.e. á sviði hafréttar, kæmu nú sjútvrn. kannski ekki mjög mikið við. En ég held að það sé alveg ljóst að það verður ekki hjá því komist að þessi verkefni séu verkefni bæði utanrrn., sjútvrn. og utanrmn. og allir aðilar verði að vinna sem best saman að því. En ég vildi aðeins nefna nokkur atriði sem hann kom hér inn á.
    Í fyrsta lagi að því er varðar samskipti við Grænlendinga, þá höfum við þegar óskað eftir áframhaldandi viðræðum við Grænlendinga um karfa og rækju. Við óskuðum eftir því að þessar viðræður hæfust sem fyrst en sjávarútvegsráðherra Grænlendinga taldi sig ekki geta hafið þær fyrr en á hausti komanda, en það er ætlunin að hann komi hér í opinbera heimsókn í september nk. og þá munum við reyna að halda slíkum viðræðum áfram. Ég tek undir það með hv. þm. að það er mjög mikilvægt að halda þessu starfi áfram og stoppa ekki við það sem nú hefur gerst. Við þurfum jafnframt að ná samningum við Grænlendinga um aðra fiskstofna. Grænlendingar hafa leigt Efnahagsbandalaginu réttindi til þess að veiða úr þessum stofnum sem eru sameiginlegir stofnar okkar og þeirra og það er mikið hagsmunamál okkar að ekki sé veitt of mikið úr þessum stofnum, en sú sala sem hefur átt sér stað frá Grænlandi til Efnahagsbandalagsins er langt umfram afrakstursgetu þessa stofns, enda hefur komið í ljós að veiðin er aðeins hluti af því sem selt hefur verið.
    Að því er varðar Færeyinga höfum við jafnframt óskað eftir því að þeir verði með í slíkum viðræðum, en karfastofninn er jafnframt á þeirra svæði. Ég vil upplýsa hv. þm. um það að ég átti fyrir stuttu viðræður við færeysku landsstjórnina um okkar sameiginlegu mál, og þá kom ég því á framfæri að laxveiðar í sjó væru andstæðar okkar vilja en var upplýstur um það að á sl. ári voru veidd innan við 200 tonn af laxi í sjó við Færeyjar og útlit fyrir að eitthvað svipað verði í ár þannig að þessar veiðar hafa dregist verulega saman. Við getum hins vegar ekki annað en viðurkennt það að við erum aðilar að þeim samtökum sem hv. þm. nefndi og þau samtök hafa fjallað um kvóta að því er varðar laxveiðar í sjó. Hins

vegar er fiskeldi mjög vaxandi í Færeyjum og það stefnir í það að þeir muni framleiða um 10 þúsund tonn af laxi og silungi nú alveg á næstunni, þannig að veiðarnar í hafinu eru að verða aðeins lítið brot af þeirra framleiðslu og má vænta þess að þeir verði það lítið háðir þessum veiðum að það séu meiri líkur til þess að þær falli niður.
    Að því er varðar okkar nýtingu á Reykjaneshrygg get ég verið alveg sammála um það að það er slæmt að ekki skyldi hafa komið til veiða okkar fyrr en nú, en það hefur verið sett upp sérstakt verkefni til þess að gera tilraunir með veiðar á þessu svæði. Þegar hafa tvö skip farið til þessara veiða, Haraldur Kristjánsson og Sjóli, með sérstökum stuðningi sjútvrn., og það er ætlunin að fleiri skip fari til þessara veiða á Reykjaneshrygg. Því miður lentu þessi skip í ýmsum byrjunarerfiðleikum vegna veiðarfæra og vegna vanþekkingar okkar á þessu svæði. Við gátum ekki sent vísindamenn með í þessar ferðir vegna verkfallsins sem nú stendur yfir, en þessum tilraunum verður haldið áfram í því skyni að við getum hafið raunhæfa nýtingu á fiskimiðunum á Reykjaneshrygg, ekki aðeins utan við 200 mílurnar, heldur jafnframt innan við 200 mílurnar. Það munu tvö önnur skip halda til þessara veiða, væntanlega í næsta mánuði og ég vænti þess að þau skip sem ég áður nefndi geti farið aftur.
    Að því er varðar samskiptin við Efnahagsbandalagið er það svo, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að hin opinbera stefna Efnahagsbandalagsins er sú að þeir krefjast veiðiheimilda í stað aðgangs að markaði. Þetta hefur margsinnis verið ítrekað í samtölum við Efnahagsbandalagið. Hitt er svo annað mál að Efnahagsbandalaginu er það alveg ljóst að þetta eru skilyrði sem við munum aldrei og getum aldrei gengið að og við höfum verið að vinna að því í sameiningu að afla skilnings innan Efnahagsbandalagsins á okkar sérstöðu. Og það er allt útlit fyrir það að þessi skilningur hafi myndast innan Efnahagsbandalagsins. En í öllum plöggum Efnahagsbandalagsins kemur þetta skýrt fram, því miður, og við verðum að sjálfsögðu að haga okkar málflutningi í samræmi við það en ég held að enginn ágreiningur sé um það á milli aðila hér innan lands eða á Alþingi að þetta eru hlutir sem við getum aldrei sætt okkur við og um það erum við sammála. Hins vegar þýðir ekkert að leyna því sem kemur
fram í málflutningi innan Efnahagsbandalagsins og þeirra manna sem þar eru. Hvað svo sem embættismenn hafa sagt við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, þá kemur þessi málflutningur mjög skýrt fram a.m.k. í þeim viðtölum sem ég átti í Brussel og ég veit að það hefur jafnframt komið mjög skýrt fram við aðra ráðherra.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Þessi mál eru okkur mjög mikilvæg og ég tel að það ríki þar ekki sinnuleysi eða áhugaleysi. Það er verið að vinna að þessum málum hægt og bítandi og þar hefur margt

áunnist og vonandi munum við vinna marga sigra í þessum málum í framtíðinni. Baráttunni yfir auðlindum hafsins hér í kringum okkur lauk ekki með sigrinum í landhelgismálinu. Ég er alveg sammála hv. þm. Eyjólfi Konráð um það. Það er svo margt annað sem þar þarf að koma til, önnur hafsvæði o.s.frv. Um þetta þurfum við að sjálfsögðu að ræða hér á Alþingi því að þetta eru okkar mikilvægustu mál og við þurfum að hafa góða samvinnu um það að ná slíkum málum í höfn, bæði milli ráðuneyta og við utanrmn. þingsins og þingið í heild.