Fundarboð í nefndum
Laugardaginn 06. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Nefndarstörf byrja á mánudaginn. Ég man ekki hvort maður er boðaður á fyrsta fundinn kl. átta eða hálfníu um morguninn. Það var talað um það að byrja árla um morguninn. Síðan verður fram haldið nefndarstörfum allan daginn, sem ýmist er boðað til í ráðuneytum eða af þinginu og nú hefur mér borist fundarboð í menntmn. kl. hálfníu um kvöldið. Þessi fundur er boðaður án alls samráðs við stjórnarandstöðu og þá sem í nefndinni sitja. Ég vil óska eftir því að hæstv. forseti geri þingdeildarmönnum grein fyrir því hvernig þinghaldið er hugsað og ég geri fyllstu athugasemd við fundarboð af þessu tagi og vil mælast til þess við hæstv. forseta að hann sjái um að nefndarstörf geti farið fram á skikkanlegum tíma. Allur morgunninn er laus og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að reyna að skipuleggja nefndarstörfin svo að þingmenn geti starfað á venjulegum vinnudegi að nefndarstörfum og við umræður hér í þinginu, en þeim gefist svo kostur á því að undirbúa sig fyrir nefndarfundi og umræður að kvöldinu. Því að það er ekki einungis fyrir okkur í stjórnarandstöðunni --- við fáum ekki sérstaka legáta eða sendiherra ofan úr ráðuneytum til þess að segja okkur hvað við eigum að gera eins og algengt er orðið með stjórnarþingmenn heldur verðum við sjálfir að reyna að ráða fram úr málefnunum sem fyrir nefndirnar komu.