Fundarboð í nefndum
Laugardaginn 06. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Mér er auðvitað ókunnugt um það hvað formaður og varaformaður nefndarinnar hafa verið að hvíslast á sín á milli. En það liggur alveg ljóst fyrir að það hefur ekki verið talað um það við mig eitt einasta orð að ég sæti á nefndarfundum að kvöldlagi í næstu viku og ég ítreka það sem ég sagði. Við þurfum í stjórnarandstöðunni að undirbúa okkur undir þau mál sem við fjöllum um, bæði í nefndum og hér í þinginu, og ég óska eftir því að við fáum næði til þess, við höfum ekki nema kvöldin, og ég óska eftir því að við fáum næði á kvöldin til þess að búa okkur undir mál. Það má búast hér við kvöldfundum. Við vitum það að þinghaldið hér er alveg dæmalaust og lausung á því og það verða margvíslegar umræður í næstu viku. Það á að ræða m.a. ítarlega um skýrslu um Sigló í Sþ. Það stefnir allt í það að það þurfi einnig að ræða ítarlega skýrslur um Samband ísl. samvinnufélaga og skattamál fjmrn. Það hafa verið gefnar eftir skattakröfur af undarlegu tilefni og það er ýmislegt fleira sem við þurfum að ræða í næstu viku.
    Það er svo fjarri lagi að halda að það hafi verið talað við mig um það hér á fundi á mánudagskvöld í menntmn. Þvert á móti var gert ráð fyrir því á fundi sem ég sat með þingmönnum Norðurl. e. og hæstv. samgrh. að vegáætlun yrði rædd á mánudaginn og talið að sú umræða gæti þá farið fram. Nú hef ég á hinn bóginn verið boðaður á fund uppi í Vegagerð í hádeginu á þriðjudag þannig að mér er ekki alveg ljóst hvenær umræður um vegáætlun geta orðið, en ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að nefndarstörf á svo afbrigðilegum tíma sem hér um ræðir séu þá a.m.k. í samráði og samvinnu við stjórnarandstöðuna en ekki dengt yfir mann tilkynningum með þessum hætti og fundarboðum.